Stjórn Karatesambands Íslands hefur útnefnt ÍR-inginn Aron Anh Ky Huynh karatekarl ársins 2016 og Maríu Helgu Guðmundsdóttur Þórshamri karatekonu ársins 2016.
Í fréttatilkynningu frá Karatesambandi Íslands kemur þetta fram:
Karatekarl ársins: Aron Anh Ky Huynh – karatedeild ÍR
Aron Anh er einn efnilegasti karatemaður sem hefur komið fram síðustu ár, er jafnvígur á keppni í kata og kumite. Aron Anh er núverandi bikarmeistari á sínu fyrsta keppnisári í fullorðinsflokki auk þess að vera Íslandsmeistari unglinga bæði í kata og kumite. Aron Anh er einnig bikarmeistari unglinga í kata ásamt því að vera í verðlaunasætum bæði á unglinga- og fullorðinsmótum í kata og kumite.
Helstu afrek Aron Anh á árinu 2016 voru;
1. Bikarmeistari karla 2016
2. Íslandsmeistari í kumite pilta 16-17 ára -68 kg
3. Íslandsmeistari í kata pilta 16-17 ára
4. Bushido-bikarmeistari í kata 16-17 ára unglinga
5. Silfur á Íslandsmeistaramóti í kumite -67 kg flokki
6. Brons á Íslandsmeistaramóti í kata karla
7. 3ja sæti í Bushido-bikarmótaröð í kumite pilta 16 og 17 ára
8. Brons á Íslandsmeistaramóti í hópkata táninga 16 og 17 ára
9. Gull í kata junior karla, RIG
Karatekona ársins: María Helga Guðmundsdóttir – Karatefélaginu Þórshamri
María Helga hefur verið sigursæl karatekona síðustu ár, keppir bæði í kata og kumite. Náði þeim frábæra árangri að vinna til silfurverðlauna á Norðurlandameistaramóti auk þess að vera bikarmeistari kvenna. María Helga hefur keppt erlendis með landsliðinu og náð góðum árangri, verið m.a. í verðlaunasætum á erlendum mótum eins og sést á árangri hennar.
María Helga er núna í 223. sæti á heimslista Alþjóðakaratesambandsins (WKF) í kumite kvenna -55 kg af 438 skráðum keppendum.
Helstu afrek Maríu Helgu á árinu 2016 voru;
1. Bikarmeistari Kvenna 2016
2. Silfur í kumite kvenna -55 kg, Norðurlandameistaramót
3. Íslandsmeistari í -61 kg flokki
4. Brons á Íslandsmeistaramóti í kumite opnum flokki kvenna
5. Brons á Íslandsmeistaramóti í kata kvenna
6. Gull í kumite -55 kg, Swedish Karate open
7. Brons í kata kvenna, Swedish Karate open
8. Silfur í -61 kg, Czezch Karate Open Cup
9. Brons í opnum flokki, Czezch Karate Open Cup
10. Gull í liðakeppni, Czezch Karate Open Cup
11. Brons í kata kvenna, RIG
Höf: Þráinn Hafsteinsson
Mynd: KAÍ