Spennandi sumarnámskeið

Í sumar mun ÍR bjóða upp á sín vinsælu  SUMARGAMAN“ námskeið  fyrir aldurshópinn 6-9 ára. SUMARGAMAN“ ÍR er íþrótta- og leikjanámskeið hjá Íþróttafélagi Reykjavíkur sem haldið er yfir sumartímann. Meginmarkmið skólans er að efla og auka skyn og hreyfiþroska barna, og veita fjölbreytt íþrótta- og leikjauppeldi. Stefna námskeiðsins er að byggja upp hjá börnunum heilbrigðar og hollar lífsvenjur, koma til móts við börn sem þurfa og vilja leika sér, og foreldra sem vilja að börn þeirra fái alhliða þjálfun í öruggu umhverfi. Íþróttafræðingurinn Sigríður Fanndal er yfirstjórnandi námskeiðanna.

Á námskeiðunum geta börnin valið um tvær brautir: Annars vegar Lista- og sköpunarbraut sem samanstendur af hreyfingu og útiveru, leikjum, göngutúrum, hjólaferðum, ævintýradögum, sönglist, föndurdögum, sundferðum, bæjarferðum, upplýsingaferðum og dansi hins vegar af Íþróttabraut sem samanstendur af frjálsíþróttaþjálfun, fimleikaþjálfun, handboltaþjálfun, knattspyrnuþjálfun og körfuknattleiksþjálfun.  Báðar brautir sameinast og fara saman í allar ferðir, svo sem ævintýraferðir, upplýsingaferðir, hjólaferðir, sundferðir og bæjarferðir.

Leikir verða nýttir í miklum mæli til að auka hreyfingu, færni og tjáningu barna, efla samkennd þeirra og hópavinnu.

Námskeiðin hefjast mánudaginn 12. júní og standa fram til 11. ágúst.  SUMARGAMAN“  eru bæði heilsdags og hálfsdags námskeið. Hægt verður að velja um hálfs dags námskeið fyrir og eftir hádegi og standa námskeiðin yfir í eina viku í senn. Þá verður boðið upp á heitan mat í hádeginu, gegn gjaldi og gæslu frá 8:00-9:00, 16:00-17:00 og 12:00-13:00 fyrir hálfsdags námskeiðin. Búið er að opna fyrir skráningar.

Fjölbreytt úrval annarra íþróttanámskeiða verða einnig í boði hjá ÍR í sumar.

 

 

 

X