Adam Pawel Blaszczak frá ÍR vann keilukeppnina á Reykjavíkurleikunum – ÍR-ingar atkvæðamiklir í keppninni

Undanfarna daga hefur staðið yfir keilumót vegna Alþjóðlegu Reykjavíkurleikanna. Adam Pawel Blaszczak sem keppir undir merkjum ÍR vann mótið í ár en hann sigraði hinn þaulreynda Hafþór Harðarson sem einnig er í ÍR í úrslitum mótsins í gærkvöldi. Þeir félagar mættu í úrslitin ásamt Robert Anderson frá Svíþjóð og EJ Nenichka frá Bandaríkjunum en 4 efstu keppendurnir komust í loka úrslitin eftir útsláttarkeppni sem hafði fara fram fyrr um daginn.

Alls tóku 29 ÍR-ingar þátt á mótinu í ár auk þess sem margir af félagsmönnum ÍR stóðu að undirbúningi og framkvæmd mótsins. Alls kepptu um 100 keilarar á mótinu frá alls 10 þjóðlöndum. Meðal þeirra voru 3 atvinnukonur sem keppa á bandarísku mótaröðinni en í ár komu aftur þær Daria Pajak frá Pólandi, Diana Zavjalova frá Lettlandi og Verity Crawley frá Englandi.

Nokkrir ÍR-ingar settu bæði Íslandsmet og önnur persónuleg met á mótinu og má þar helst nefna að Gunnar Þór Ásgeirsson náði sínum fyrsta fullkomna leik á ferlinum. Einar Már Björnsson náði sínum öðrum fullkomna leik en Adam Pawel gerði sér lítið fyrir og náði sínum fyrsta 300 leik í sjónvarpsúrslitunum í gærkvöldi.

Héldu keppendur merkjum ÍR hátt á lofti í mótinu.

Sjá má hér úrslit mótsins á vef þess

Sjá má hér streymi frá riðlum mótsins sem og útsláttarkeppni

Sjá má hér útsendinguna sem var á RÚV 2

X