Íþróttafélag Reykjavíkur

Tvöfaldur ÍR sigur á Íslandsmóti einstaklinga

Í gærkvöldi lauk keppni á Íslandsmóti einstaklinga 2022 í keilu. Voru það þau Hafþór Harðarson og Linda Hrönn Magnúsdóttir bæði úr ÍR sem urðu Íslandsmeistarar. Hafþór var að ná sínum 6. Íslandsmeistaratitli þar af annan í röð og jafnar þar með met annars ÍR-ings hans Magnúsar Magnússonar en þeir tveir bera höfuð og herðar annarra karla á Íslandsmótinu. Linda Hrönn var að ná sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli einstaklinga en hún hefur samt sigrað Íslandmót öldunga (50+) auka annarra móta á sínum ferli.

Linda sem er á 63. aldursári er einnig elsti einstaklingurinn sem sigrar þetta mót. Spilaði hún úrslitaleikinn með því að ná 238 pinna af 300 mögulegum, stórglæsilegt hjá henni. Í öðru sæti hjá konunum varð Ástrós Pétursdóttir einnig úr ÍR og í 3. sæti í karlakeppninni varð Einar Már Björnson ÍR-ingur. Hafþór sigraði úrslitakeppnina örugglega en hann náði þar 235 pinnum gegn 164 hjá Arnari Davíð úr KFR.

X