Lið ÍR bar sigur býtum í 12. bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands innanhúss sem fór fram í Kaplakrika í dag. Sveit ÍR setti Íslandsmet í 4×200 m boðhlaupi kvenna á tímanum 1:38,43. Sveitina skipuðu þær Tiana Ósk Whitworth, Helga Margrét Haraldsdóttir, Aníta Hinriksdóttir og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir. Aníta setti einnig mótsmet í 1500 m hlaupi kvenna á tímanum 4:34,68 mín og Hulda Þorsteinsdóttir setti mótsmet í stangarstökki kvenna með stökki upp á 4,25 m.
Lið ÍR hlaut 103 stig, jafnmörg og FH-A, sem var í 2.sæti, en okkar fólk sigraði í fleiri greinum en lið FH. Breiðablik hafnaði í 3. sæti. Til viðbótar við greinarnar sem nefndar eru að ofan sigruðu ÍR-ingar í fimm greinum. Ívar Kristinn Jasonarson sigraði í 400 m hlaupi karla á tímanum 48,25 sek, Einar Daði Lárusson í 60 m grindahlaupi karla á tímanum 8,39 sek, Tiana Ósk sigraði í 60 m hlaupi kvenna á tímanum 7,62 sek og í kúluvarpi sigruðu ÍR-ingar hjá körlum og konum, Óðinn Björn Þorsteinsson kastaði 16,48 m og Erna Sóleyj Gunnarsdóttir kastaði kúlunni 13,68 m.
Þrír ÍR-ingar hluti silfurverðlaun á mótinu, þau Sæmundur Ólafsson í 1500 m hlaupi karla á tímanum 4:06,62 mín, Þorsteinn Ingvarsson í þrístökki karla með stökki upp á 14,19 m og Hrafnhild Eir í 400 m hlaupi kvenna á tímanum 56,68 sek. Þá fékk okkar fólk brons í fjórum greinum; Jón Gunnar Björnsson stökk 1,83 m í hástökki karla, Helga Margrét í 60 m grind kvenna á tímanum 9,03 sek, Hildigunnur Þórarinsdóttir stökk 5,66 í langstökki kvenna og boðhlaupssveitin í 4×200 m hlaupi karla varð þriðja á tímanum 1:31,38 mín.
ÍR-ingar höfðu einnig sigur í stigakeppni kvenna og hlutu þar 51 stig, tveimur stigum meira en FH-A. Í karlakeppninni höfðu FH-ingar betur og sigruðu með sama mun.
Til hamingju með frábæran árangur ÍR-ingar!