Bílaumboðið Hekla og Íþróttafélag Reykjavíkur gerðu með sér samstarfssamning síðasta haust. Í tilefni þess ákvað Hekla að leggja félaginu bifreið til afnota sem mun auðvelda mjög alla þjónustu við fjögur íþróttahús og velli sem ÍR rekur víðsvegar um Breiðholtið. Um er að ræða Volkswagen Caddy sem er einn mest seldi atvinnubíllinn á Íslandi undanfarin ár og er af vistvænni gerðinni en hann gengur fyrir íslensku metani. Friðbert Friðbertsson forstjóri Heklu afhenti Ingigerði Guðmundsdóttur formanni ÍR bílinn sem er merktur ÍR og Heklu. „Það er ánægjulegt að taka þátt í gróskumiklu íþróttastarfi hverfisins og við vonum að bíllinn komi að góðum notum,“ sagði Friðbert við tilefnið.