Níu ÍR-ingar meðal 100 bestu í Evrópu

Keppnistímabil afreksfólks ÍR í frjálsíþróttum fer af stað af miklum krafti og sem stendur eru níu ÍR-ingar sem komast inn á lista 100 bestu í sinni grein í Evrópu í karla og kvennaflokki.

Fremstur í flokki níumenninganna er kringlukastarinn Guðni Valur Guðnason sem er í 14. sæti á Evrópulistanum með 64.77m kasti sem hann náði á alþjóðlegu móti í Eistlandi.  Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er í 26. sæti með Íslandsmet sitt í 200m 23.45 sek, sett á Unglingameistaramóti Íslands á Selfossi á dögunum. Aníta Hinriksdóttir er í 33. sæti með 1500m tíma sinn 4:14,00 frá Nijmegen í Hollandi. Dagbjartur Daði  Jónsson er í 38. sæti með stórbætingu sína í spjótkasti og sigur á Smáþjóðaleikunum 77.58m. Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir er í 40. sæti með 16.13m sem hún náði á háskólamóti í Houston í Bandríkjunum í vor og er næstbesti árangur íslenskrar konu frá upphafi í greininni.  Benjamín Johnsen er í 65. sæti yfir bestu tugþrautarmenn Evrópu á tímabilinu eftir stórbætingu 7047 stig sem gestakeppandi í landskeppni Svía og Finna í Uppsala fyrr í mánuðinum.  Hlynur Andrésson er í 77. sæti í 3000m hindrunarhlaupi 8:57.20 eftir sigurhlaup sitt á Smáþjóðaleikunum og Tíana Ósk Whitworth er í 78. sæti í 200m hlaupi með bætingu sinni á Unglingameistaramóti Íslands Selfossi 23.82 sek, sem er þriðji besti árangur íslenskrar konu í 200m frá upphafi. Síðast en ekki síst er hin 17 ára gamla Elísabet Rúnarsdóttir í 85. sæti með Íslandsmetskasti sínu í sleggjukast upp á 62.16m, sett í Borgarnesi.

X