ÍR-ingar Íslandsmeistarar 15-22 ára

Lið ÍR sigurvegarar á MÍ 15-22 ára janúar 2019

ÍR kom sá og sigraði glæsilega á MÍ 15-22 ára í Kaplakrika um helgina og endurheimti Íslandsmeistaratitilinn úr höndum HSK/Selfoss sem sigraði á mótinu í fyrra. Lið ÍR hlaut alls 392 stig á móti 305 stigum HSK/Selfoss sem hafnaði í 2. sæti, en stig eru gefin fyrir 1. – 6. sæti. ÍR-ingar voru ekki aðeins sigurvegarar í heildarstigakeppninni heldur einnig í flokkum pilta 18-19 ára og stúlkna 18-19 ára og 20-22 ára

ÍR-ingar hlutu flest verðlaun eða 60 talsins þar af 20 gull, FH-ingar hlutu 50 verðlaun og fjórum gullum meira en ÍR og lið HSK/Selfoss fékk 48 verðlaunapeninga, þar af 15 gullverðlaun. Alls sendu 19 félög og héraðssambönd keppendur á mótið.

Alls féllu mótsmet í 12 greinum og þar af setti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR þrjú þeirra, í 60m, 200m og 400 og að auki var hún í sveit ÍR sem setti mótsmet í 4×200 m boðhlaupi 18-19 ára stúlkna.
Þeir ÍR-ingar sem lönduðu Íslandsmeistaratitlum um helgina voru

Magnús Örn Brynjarsson, 15 ára, 300m hlaup. Hann varð einnig í  2. sæti í 800m og 1500m og í 3. sæti í 60m grindahlaupi.

Gísli Igor Zanen 18-19 ára, 400m hlaup með gríðarlegum yfirburðum eða næstum 10 sek á undan næsta keppanda.

Hlynur Ólason 18-19, 1500m og góð bæting á hans besta árangri til þessa.

Birgir Jóhannes Jónsson 18-19 ára, 60m grindahlaup og þrístökk. Birgur varð 2. í 60m og 3. í 200m.

Kolbeinn Tómas Jónsson 18-19 ára, hástökk og glæsileg bæting á hans besta árangri til þessa, 1.85 m.

Þorvaldur Tumi Baldursson 18-19 ára, stangarstökk. Þá varð hann þriðji í langstökki, fjórði í þrístökki og hástökki.

Í 4 x 200m boðhlaupi 18-19 ára sigraði ÍR sveitin glæsilega með 9 sek forskot á næstu sveit en sveitin var skipuð þeim Birgi Jóhannesi Jónssyni, Elvari Karli Auðunssyni, Gísla Igor Zanen og Þorvaldi Tuma Baldurssyni.

Dagur Andri Einarsson sem keppir í flokki 20-22 ára flokki, sigraði í 60m á glæsilegum tíma og með góðum yfirburðum, en Dagur var að keppa í fyrsta sinn undir merkjum ÍR.

Andri Már Hannesson í flokki 20-22 ára, í 1500m. Hann varð í 3. sæti í 800m.

Íslandsmeistarar í flokki stúlkna 16-17 ár í 4 x 200m urðu þær Filippía Ingadóttir, Fanney Rún Ólafsdóttir, Elísabet Rut Rúnarsdótti sem betur er þekkt fyrir að keppa í kastgreinum og Elma Sól Haraldsdóttir. Elma Sól varð einnig 2. í 60 m og í langstökki og hlaut brons í 200 m.

Í flokki 18-19 ára bætti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir mótsmetið í 60m í tvígang þegar hún hljóp á 7,58 sek og 7,53 sek sem er jafnframt hennar besti tími og þriðji besti tími Íslenskrar konu en aðeins ÍR-ingarnir Tiana Ósk Whitworth og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir hafa hlaupið hraðar. Tími Guðbjargar er aðeins 11/100 sek frá lágmarki á EM fullorðinna í mars. Guðbjörg kom sá og sigraði einnig í 200m með mótsmeti og Íslandsmeti í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára, tíminn var 24.05 sek sem er annar besti tími íslenskrar konu frá upphafi, aðeins tími Silju Úlfarsdóttur FH frá árinu 2004, 23,79 sek er betri. Þriðja mótsmet Guðbjargar féll í 400m hlaupi þegar hún hljóp á 56.10 sek en hún á sjálf best 55.04 sek innanhúss frá 2017.

Ingibjörg Sigurðardóttir sigraði í 800m og bætti sig en hún varð síðan 2. í 400m.

Helga Margrét Haraldsdóttir varð fyrst í 60m grind og kastaði lengst í kúluvarpinu eða nákvæmlega 2 m lengra en næsta stúlka. Hún varð auk þess 3. í 60m og bætti sinn besta tíma tvívegis og lauk síðan deginum með því að verða 3. í 200m.

Sveit ÍR í 4 x 200m hljóp glæsilega til sigurs 23 sek á undan næstu sveit, enn eitt mótsmetið sem féll í skaut Guðbjargar. Sveitina skipuðu Helga Margrét Haraldsdótti, Dagbjört Lilja Magnúsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir.

Hildigunnur Þórarinsdótti sigraði i 60m grindahlaupi, auk þess að verða 2. í 60m, langstökki og þrístökki.

Innilegar hamingjuóskir til ÍR-inga, íþróttamanna, þjálfara, foreldra og allra sem starfa svo ötutulega fyrir ÍR, var og hvenær sem er.

Næsta verkefni er RIG 2019 en mótið fer fram í Laugardalshöll 3. febrúar kl. 13-15 og eru nánari upplýsingar hér http://fri.is/reykjavik-international-games-2019/ en fjöldi ÍR-inga keppir á mótinu auk þess sem starfsmenn úr röðum ÍR-inga munu starfa við mótið. Helgina á eftir verður MÍ 11-14 ára haldið í Laugardalshöll og þar munu ÍR-ingar tefla fram vaskri sveit.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

 

X