ÍR-ingar í eldlínunni á frjálsíþróttakeppni RIG graphic

ÍR-ingar í eldlínunni á frjálsíþróttakeppni RIG

01.02.2019 | höf: María Stefánsdóttir

Frjálsíþróttahluti Reykjavík International Games (RIG) fer fram í Laugardalshöll sunnudaginn 3. febrúar og hefst keppnin kl. 12:30. Það verður mikið um dýrðir á mótinu en mikið kapp hefur verið lagt á að fá frábæra keppendur erlendis frá til að etja kappi við besta frjálsíþróttafólk landsins.

ÍR-ingar verða í mörgum af stærstu hlutverkum dagsins. Fyrst má nefna Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur sem er ein af sjö ÍR-ingum sem keppa í 60m hlaupi. Guðbjörg Jóna hljóp frábærlega um sl. helgi og bætt sinn besta tíma með því að hlaupa á 7.58 sek. Helstu keppinautar hennar verða þær Hannah Waller frá USA sem á best 7,51 sek, Finette Agyapong frá Bretlandi sem á best 7,35 sek, Astrid-Glenner Frandsen frá Danmörku sem á best 7,50 sek og Louise Östergard einnig frá Danmörku sem á best 7,49 sek. Flestar íslensku stúlknanna hafa verið að bæta sig að undanförnu og vonandi tekst þeim vel upp á sunnudaginn. Í 400m karla eru þrír riðlar og í þeim sterkasta hleypur Ívar Kristinn Jasonarson á móti tveimur sterkum keppendum, þeim Nick Ekelund Arenander frá Svíþjóð og Þjóðverjanum Thomas Somers. Ívar hefur verið í Svíþjóð við nám og æfingar frá því í haust og verður gaman að sjá kappann á brautinni en hann hljóp 26. janúar sl. á móti í Nörrköping á 49,95 sek og varð 2. en Ívar á best 48,03 sek en hans besti tími í fyrra var 48.25 sek.

Keppt verður í blandaðri keppni í kúluvarpi og þar verður gaman að sjá til Helgu Margrétar Haraldsdóttur sem sigraði á MI 15-22 ára um sl. helgi með kast sem var 2 m lengra en næstu keppendur, Helga keppir einnig í 60m hlaupi þar sem hún hefur verið að bæta sig töluvert að undanförnu.

Í hástökki verður einnig spennandi keppni en ÍR-ingurinn Benjamín Jóhann Jónsson verður í eldlínunni þar en hann hefur stokkið hæst 1,99m.

Margir bíða í ofvæni eftir 1500m hlaupi karla en þar etur ÍR-ingurinn Hlynur Andrésson kappi við frábæra hlaupara, Danina Nick Jensen (3:44 mín) og Andreas Lindgreen (3:41,20mín) og Archie Davis (3:41,10 mín) frá Þýskalandi. Hlynur á best 3:49,19 mín þannig að hann fær frábæra keppni en hlaupið verður sett upp með það að markmiði að hlaupa undir 3:45 mín sem er lágmark á EM innanhúss í mars.

Síðasta grein mótsins verður mjög alþjóðleg en þar verða, auk Anítu Hinriksdóttur, þær Shelayna Oskan-Clarke frá Bretlandi (1:59,81 mín), hin írska Claire Mooney (2:01,61 mín), Diana Mezulianikova frá Tékklandi (2:01,76 mín), Olga Kosichenko frá Bandaríkunum (2:02,92 mín) og Weronicka Katrqyna frá Pólandi en komið hefur fram í fréttum að Aníta hafi aldrei fengið svo sterka keppni hér á landi. Þær munu efalaust stefna á tíma nálægt 1:59 mín en lámarkið á EM er 2:05 mín en Aníta hefur þegar náð því lágmarki í fyrra en Íslandsmet Anítu innanhúss er 2:01,18 mín sett á RIG 2017

Tímaseðill og keppendalisti

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

X