Átta Íslendingar hafa náð lágmörkum til keppni á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Róm 7. – 12. júní nk, og er þetta mesti fjöldi íslenskra keppenda á mótinu í 66 ár. Af þessum átt keppendum eru fimm ÍR ingar, það eru þau Dagbjartur Daði Jónsson í spjótkasti, Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir í sleggjukasti, Erna Sóley Gunnarsdóttir í kúluvarpi og Guðni Valur Guðnason í kringlukasti en þau tvö síðast nefndu voru kjörin íþrótta kona og karl ÍR fyrir árið 2023.
Dagbjartur Daði Jónsson hefur átt gott tímabil með lengsta kast sitt 76,52m á Úrvalsmóti ÍR í maí og er í 26. sæti á stigalista fyrir EM.
Elísabet Rut Rúnarsdóttir bætti eigið Íslandsmet í sleggjukasti tvisvar í ár, síðast í 70,33 m á Bobcat Invitational í Texas, og er í 28. sæti á stigalista fyrir EM.
Erna Sóley Gunnarsdóttir hefur kastað lengst 17,20 m á Norðurlandameistaramótinu utanhúss og er í 16. sæti á stigalista fyrir EM.
Guðni Valur Guðnason varð Norðurlandameistari í kringlukasti í lok maí en náði sínu besta kasti í ár, 63,95 m á sterku móti í Bandaríkjunum. Hann er í 19. sæti á stigalista fyrir EM.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir bætti eigið Íslandsmet í lóðkasti í þrígang og hefur kastaði sleggjunni lengst 69,76 m. Hún er í 29. sæti á stigalista fyrir EM.
Með þessari öflugu þátttöku má segja að ný gullöld frjálsíþrótta á Íslandi sé hafin og er fram undan mikil frjálsíþrótta veisla fyrst með EM en síðan með Ólympíuleikunum í París.