Hafþór Harðarson úr ÍR sigraði forkeppni heimsbikarmóts einstaklinga AMF World Cup en undanúrslitakeppnin í forkeppninni hér heima fór fram um helgina. Hafþór sigraði Björn Birgisson úr KR í úrslitaviðureigninni með 222 pinnum gegn 183. Með sigrinum hlýtur Hafþór ferð og keppnisrétt á 52. heimsbikarmóti einstaklinga sem fram fer í Shanghai í Kína dagana 14. til 23. október í ár. Að venju fær sigahæsti einstaklingurinn af gagnstæði kyni einnig þátttökurétt á því móti og í ár varð það Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR sem varð efst kvenna en hún endaði í 5. sæti eftir undanúrslitin í dag. Í þriðja sæti varð svo Gústaf Smári Björnsson úr KFR og í fjórða sæti varð Stefán Clasessen úr ÍR.
Undanúrslitin fóru þannig fram að 10 keilarar kepptu sín á milli með því að spila einn leik allir við alla, alls 9 leikir. Fjórir efstu keilararnir eftir undanúrslitin í dag fóru áfram í svokallaðan Step Ladder þannig að þeir sem voru í fjórða og þriðja sæti kepptu um rétt til þess að keppa við þann sem varð í öðru sæti og svo sigurvegarinn úr þeirri viðureign keppti við þann sem varð í fyrsta. Röð keilara eftir undanúrslitin var þessi:
- sæti Björn Birgisson úr KR með 2.060 stig
- sæti Hafþór Harðarson ÍR með 2.026 stig
- sæti Gústaf Smári Björnsson KFR með 1.981 stig en hann spilaði sig inn í úrslitin með því að taka 290 leik í næst síðasta leiknum í undanúrslitunum
- sæti Stefán Claessen ÍR með 1.973 stig
- sæti Dagný Edda Þórisdóttir KFR með 1.959 stig
- sæti Gunnar Þór Ásgeirsson ÍR með 1.945 stig
- sæti Guðlaugur Valgeirsson KFR með 1.883 stig
- sæti Freyr Bragason KFR með 1.878 stig
- sæti Bjarni Páll Jakobsson ÍR með 1.874 stig
- sæti Þorleifur Jón Hreiðarsson KR með 846 stig en Þorleifur varð að hætta keppni eftir 5. leik vegna veikinda.