Gunnar Þór og Nanna Hólm keilarar ársins hjá ÍR

Föstudaginn 27.des fór fram afhending verðlauna fyrir íþróttafólk og heiðursverðlauna innan ÍR.
Keilarar ársins eru Gunnar Þór Ásgeirsson og Nanna Hólm Davíðsdóttir.

Gunnar Þór Ásgeirsson
varð Íslandsmeistari einstaklinga í keilu í fyrsta sinn á ferlinum fyrr á
þessu ári. Hann keppti því fyrir Íslands hönd á Evrópubikarmóti einstaklinga ECC 2019 sem
fram fór í Ankara í Tyrklandi í október 2019.
Gunnar Þór spilaði til úrslita á Reykjavík International mótinu í janúar 2019. Hann endaði
þar í 2. sæti og bætti meðal annars sinn besta árangur í 4. og 5. leikjum. Gunnar Þór varð
einnig í 3. sæti á Reykjavíkurmóti einstaklinga í september 2019.
Gunnar Þór varð Íslandsmeistari liða 2019 og vann einnig Meistarakeppni KLÍ 2019 með liði
sínu ÍR-PLS og var það annað árið í röð. Gunnar Þór varð einnig Íslandsmeistari í tvímenningi
2018 með Alexander Halldórssyni.
Gunnar Þór byrjaði í keilu á árinu 2011, tók hröðum framförum og er nú með
meðaltalshæstu leikmönnum landsins. Hann hefur átt sæti í karlalandsliðinu síðustu ár og
keppti með liðinu á Evrópumóti karla í keilu EMC 2019 sem fram fór í Munchen í júní.
Gunnar Þór keppti einnig á nokkrum mótum á Evrópsku mótaröðinni og náði bestum
árangri þegar hann varð í 28. sæti á Brunswick Eurochallenge sem er eitt af sterkustu
mótunum á Evróputúrnum.
Gunnar Þór hefur verið öflugur í starfi innan deildarinnar og hefur einnig verið fullrúi í
nefndum á vegum Keilusambandsins á undanförnum árum.

Nanna Hólm Davíðsdóttir varð Íslandsmeistari einstaklinga í keilu fyrsta sinn á ferlinum á
þessu ári. Með sigrinum vann hún sér þátttökurétt til að keppa fyrir Íslands hönd á
Evrópubikarmóti einstaklinga ECC 2019 sem fram fór í Ankara í Tyrklandi í október 2019.
Nanna hefur einnig tvívegis á síðustu árum orðið Íslandsmeistari para ásamt Einari Má
Björnssyni og á þessu ári höfnuðu þau í 4. sæti mótsins.
Nanna hóf keiluiðkun með Þór á Akureyri árið 2014, en gekk til liðs við lið ÍR-SK haustið
2017. Hún tryggði sér fljótlega eftir það sæti í kvennalandsliðinu í keilu og hefur keppt með
liðinu undanfarin ár. Engin verkefni voru hins vegar hjá kvennalandsliðinu á þessu ári.
Nanna keppti að sjálfsögðu á Reykjavík International mótinu í janúar 2019 og bætti þar sinn
besta árangur í 1 til 6. leikjum og var örfáum pinnum frá því að tryggja sig áfram í keppni.
Nanna hefur verið öflug í starfi innan deildarinnar og einnig sinnt keiluþjálfun í yngri
flokkum.

Eftir val á Íþróttafólki innan deildana voru afhent heiðursverðlaun sem að eru veitt fyrir sjálfboðastarf fyrir ÍR.
Hjá keilunni var það Svavar Þór Einarsson sem að fékk afhent silfurmerki ÍR.

Svavar Þór Einarsson hóf keiluiðkun árið 2012 og hefur alla tíð leikið undir merkjum félagsins. Svavar Þór hefur setið í stjórn Keiludeildar ÍR frá árinu 2014, sem meðstjórnandi, varaformaður og formaður árið 2018 – 2019 og nú sem varamaður. Svavar Þór er formaður mótanefndar Keiludeildar ÍR og hefur setið í mótsstjórn RIG, keilumóts Reykjavíkurleikanna síðustu 5 árin. Svavar Þór var einnig fulltrúi keiludeildarinnar í Mótanefnd KLÍ á árinum 2015 – 2019 og þar af sem formaður nefndarinnar árin 2016 – 2019. Nú er Svavar formaður Upplýsinganefndar KLÍ og er Mótanefndinni KLÍ til aðstoðar í verkefnum sínum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndir eru fengnar frá Birgi Kristinssyni.

X