ÍR dagur og vígsla Parkethúss

Þann 27. ágúst síðastliðinn var haldinn ÍR dagur 2022 þar sem gestum og gangandi var boðið í heimsókn í Skógarselið. Deildirnar kynntu starfsemi sína og var hápunktinum náð þegar borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, vígði nýtt Parkethús sem mun héðan í frá þjóna sem heimavöllur bæði handknattleiks- og körfuknattleiksdeildar félagsins.

Séra Ólafur Jóhann Borgþórsson, sóknarprestur Seljakirkju, blessaði nýju húsakynnin og þau Ómar Einarsson fráfarandi sviðsstjóri íþrótta- og tómstundasviðs, Ingigerður Guðmundsdóttir fyrrverandi formaður ÍR og Runólfur Sveinsson fengu afhendan blómavönd sem þakklætisvott fyrir það góða verk sem þau hafa unnið til þess að draumurinn um þetta hús gat orðið að veruleika.

Að athöfn lokinni var boðið upp á veitingar og þykir líklegt að heilt yfir hafi yfir eittþúsund manns heimsótt svæðið á þessum góða degi. Starfsmenn ÍR sem og þeir sjálfboðaliðar sem lögðu hönd á plóg eiga hrós skilið fyrir góða framkvæmd.

Ómar Einarsson, sviðsstjóri Íþrótta og tómstundasviðs, Vigfús Þorsteinsson, formaður ÍR, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Ingigerður H. Guðmundsdóttir fyrrverandi formaður ÍR og Runólfur Sveinsson.

 

Líf og fjör var í salnum er áhugasamir krakkar spreyttu sig í hinum ýmsu íþróttum.
X