Víðavangshlaup ÍR 25.apríl 2024

Á Sumardaginn fyrsta, þann 25. apríl næstkomandi, fer Víðavangshlaup ÍR fram í samstarfi við Nivea, Sportvörur og Lindex. Víðavangshlaupið er eitt vinsælasta og fjölmennasta 5 km keppnishlaupið sem fram fer á Íslandi enda er hlaupið í hjarta Reykjavíkurborgar þar sem hlaupaleiðin liggur um miðbæ hennar. Hlaupið fór fyrst fram árið 1916 og hefur farið fram ætíð síðan og oftast á Sumardaginn fyrsta fyrir utan 2021 þegar hlaupið var í maí vegna covid takmarkana.

Hið þekkta nafn viðburðarins gefur til kynna að hlaupið sé á víðavangi en svo er ekki lengur en Víðavangshlaup ÍR er eitt af fáum götuhlaupum landsins þar sem götum er lokað og hlauparar og áhorfendur fá tækifæri til að leggja þær óáreittir undir sig.

Flestir af hröðustu hlaupurum landsins mæta í Víðavangshlaup ÍR þar sem það hefur ávallt verið talinn mikill heiður að vera með þeim fyrstu í mark og hefur endaspretturinn að og yfir marklínuna oft verið gríðar spennandi! Ekki skemmir fyrir að undanfarin ár hefur hlaupið verið Íslandsmótið í 5 km götuhlaupi og því til mikils að vinna.

Að hlaupið sé Íslandsmót, má þó ekki hafa áhrif á þátttöku þeirra sem ekki eru að berjast um gullið, hlaupið er fyrir alla, hver sem getan og hraðinn er. Það er jú þannig að megin markmiðið er að taka þátt og njóta þess að hlaupa og upplifa stemminguna sem fylgir hlaupinu og vorstemmingu borgarinnar.

Samhliða Víðavangshlaupinu fer fram 2,7 km skemmtiskokk sem hentar vel byrjendum og fjölskyldunni saman, ungum sem öldnum og má segja að fátt eigi eins vel við og að fagna sumarbyrjun með þátttöku í hlaupinu.

Tímasetning

Hlaupið er ræst í Pósthússtrætinu Sumardaginn fyrsta, 25. apríl kl. 12:00. Skemmtiskokkið er ræst kl. 12:10 í Lækjargötunni fyrir framan MR. Þátttakendur og áhorfendur eru hvattir til þess að mæta tímanlega á keppnisstað og hafa hugfast að það getur tekið tíma að leggja bílum í miðbæ borgarinnar á þessum degi.

Skráning

Víðavangshlaup ÍR er jafnframt Íslandsmeistaramót í 5 km götuhlaupi og fer framkvæmd hlaupsins fram samkvæmt reglum Frjálsíþróttarsambands Íslands en í því felst að tímar keppenda eru viðurkenndir til skráningar í afrekaskrá. Nánari upplýsingar um hlaupið og skráning er á heimasíðu hlaupsins.

  • Skráning á vefnum er opin til 11:00 á hlaupdag.
  • Afsláttur af skráningargjaldi er veittur til og með 10. apríl og gildir almennt gjald frá 11. apríl. Þátttökugjaldið hækkar einnig á hlaupdegi. Forskráning fer jafnframt fram í Sportvörum 24. apríl á milli kl. 12:00 og 18:00
  • Unnt er að skrá sig á hlaupdegi í Ráðhúsi Reykjavíkur frá kl. 9:00-11:00 eða þar til 60 mínútum fyrir hlaup, keppendur eru vinsamlegast beðnir um að virða tímamörkin.

 

Forskráðir geta sótt gögnin sín í Sportvörur, Dalvegi 32a Kópavogi, 24. apríl á milli kl. 12:00 og 18:00. Gögn verða afhent í Ráðhúsi Reykjavíkur hlaupdegi á milli kl. 9:00 og 11:00 eða þar til 60 mínútum fyrir hlaup.

Verðlaunaafhending

Verðlaunaafhending fer fram við marksvæðið skömmu eftir að fyrstu þrjár konur og þrír karlar eru komin í mark, áætlað um kl. 12:20.

X