Víðavangshlaup ÍR fór fram 109. sinn á sumardaginn fyrsta. 600 manns á öllum aldri mættu í miðbæ Reykjavíkur til að hlaupa 5 og 2,7 km og um 70 til viðbótar mættu til að standa vaktina í brautinni og í markinu til að hlaupið færi fram á öruggan og löglegan hátt en hlaupið er á götum miðborgarinnar sem þýðir veigamiklar lokanir á umferð.
Hlaupið hefur skipað sé veigamikinn sess í dagskrá fjölda fólks sem heldur sumardaginn fyrsta hátíðlegan með því að hlaupa en svo er hlaupið einnig Íslandsmótið í 5 km götuhlaupið og ekki síst af þeim sökum mæta flestir bestu hlaupararnir til að reyna með sér. Til að gera sér grein fyrir þátttökufjöldanum þá var þetta mesti fjöldi síðan 2019 sem má sjá ef farið er nokkur ár aftur í tímann en fjöldinn sem lokið hefur 5 km hlaupinu er sem hér segir. 464 árið 2024, 457 árið 2023, 172 árið 2022, 377 árið 2021, 161 árið 2020 (hlaupið haldið í september) og 548 árið 2019.
ÍR ingar áttu marga flotta fulltrúa í hlaupinu en Andrea Kolbeinsdóttir sigraði líkt og í fyrra og var örfáum sekúndum frá Íslandsmetinu sínu síðan þá, en hún hljóp á 16:39 mín og sigraði mjög örugglega.
Helga Guðný Elíasdóttir varð 7., Fríða Rún Þórðardóttir 8. og Helga Lilja Maack 12. En 184 konur luku keppni. Fríða Rún sigraði 50-59 ára flokkinn með 6 mín forskoti á næstu og á nýju Íslandsmeti í flokknum 18:49 mín og Helga Lilja vann sinn flokk, 15-17 ára með 8 mín. Í flokki 14 ára og yngri átti ÍR stúlkuna í 2. og 3. sæti en það voru þær Sonja Björt Birkisdóttir á 24:29 mín og Katrín Hulda Tómasdóttir á 24:30 mín.
Karla megin þá varð Logi Ingimarsson fjórði í mark og Þórólfur Ingi Þórólfsson 11. en Þórólfur varð síðan Íslandsmeistar í flokki 40-49 ára, 278 karlar luku hlaupinu og því var þetta frábær árangur hjá þeim báðum.
Frjálsíþróttadeildin vill þakka Sjálfboðaliðum og styrktaraðilum fyrir þeirra stuðning til að hlaupið færi jafn glæsilega fram en öll börn fengu gjafapoka með ýmsum glaðningi frá þessum fyrirtækjum og fjöldi útdráttarverðlauna var afhentur auk glæsilegra verðlauna fyrir fyrstu sætin í flokkum karla og kvenna.