Úrvalsmót ÍR 11.5

Fyrsta af þremur úrvalsmótum frjálsíþróttadeildar ÍR var haldið á ÍR vellinum í Skógarseli 11.5. Mótið var World Calander mót sem þýðir að framkvæmd þess fylgir ströngum kröfum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (World Athletics) og sendir FRÍ dómara til að sinna yfirdómarastörfum. Árangur á mótinu er vottaður sem þýðir að hann telst til stigasöfnunar gagnvart vali á alþjóðleg mót þar á meðal EM og Ólympíuleika.

Mótið fór vel fram og náðu margir keppendur sínum besta árangri til þessa þar á meðal Vigdís Jónsdóttir ÍR í sleggjukasti 63.77m sem er bæting úr 63.63m frá því í fyrra.

Hilmar Örn Jónsson FH sem stefnir hraðbyri að lágmarki á Ólympíuleikana í París í sumar kastaði sleggjunni 74.15m sem er ekki langt frá hans ársbesta.

Dagbjartur Daði Jónsson ÍR sem einnig horfir til Ólympíuleika náði sínum ársbesta árangri í spjótkasti 76.52m sem gefur góð fyrirheit fyrir framhaldið.

Guðni Valur Guðnason ÍR kastaði kringlunni 62.56 m en fann sig ekki fullkomlega þennan daginn frekar en Erna Sóley Gunnarsdóttir sem náði sér ekki almennilega á strik en kastaði kúlunni þó 16.53 m og 16.51m.

Þau Guðni Valur, Erna Sóley og Dagbjartur eru öll meðal keppenda á norðurlandamótinu í Malmö um næstu helgi, auk Ingibjargar Sigurðardóttur, Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur og Eirar Chan Hlésdóttur. Einnig keppa Hilmar Örn og Hera.

Benedikt Gunnar Jónsson ÍR og Birna Jóna Sverrisdóttir ÍR bættu bæði sinn besta árangur, Benedikt varpaði kúlunni 15.98m og Birna þeytti sleggjunni 57.67m sem er lágmark hjá henni á EM U18 sem haldið er í Slóvakíu 18. – 21. júlí og bætist hún því í hóp með Ísold Sævarsdóttur FH, Arnari Loga Brynjarssyni ÍR og Eir Chang Hlésdóttur ÍR sem einnig hafa náð lágmarki á mótið.

Hera Christensen FH bætti sig í kringlunni með 52.02m.

Það var einnig stokkið þrístökk á mótinu og bættu félagarnir Hjálmar Vilhelm Rúnarsson Selfossi og Helgi Reynisson Þjótanda sig báðir í sterkum mótvindi. Hjálmar stökk 13.04m og Helgi 11.26m en báðir eru fæddir 2008. Vésteinn Loftsson frá Selfossi bætti sig í kringlunni kastaði 39.32m

X