Smáþjóðaleikar, dagur 1

Smáþjóðaleikarnir byrjuðu í dag með hörkukeppni hjá Landsliði Íslands. Af 21 keppenda í liðinu eru 10 einstaklingar úr ÍR eins og hefur komið fram á síðunni. Í dag náði íslenska landsliðið 3 gullverðlaunum, tveim silfurverðlaunum og tveimur bronsverðlaunum.

ÍR-ingar stóðu sig með prýði í sínum greinum í dag.
Undanúrslit í 100m kvenna féll niður og því voru bein úrslit. Tíana Ósk og Hrafnhild Eir kepptu þar í sama hlaupi. Tíana hljóp á 12.14 sek og varð í fimmta sæti og Hrafnhild á 12.09 sek í fjórða sæti.
Í langstökki karla tryggðum við okkur gull og silfur nokkuð örugglega. IR-ingurinn Þorsteinn Ingvarsson sigraði og stökk 7.54m, Kristinn Torfason, FH stökk 7.42metra og varð annar.
Í undanrásum 400m hlaups karla tryggði Ívar Kristinn Jasonarson sér inn í úrslit á tímanum 48.85 og varð annar í sínum riðli á frekar léttu öryggishlaupi. Úrslit fara fram á fimmtudaginn. Trausti Stefánsson, FH hljóp á 50.30sek og varð hann níundi í keppninni
Í kúluvarpi karla tryggði Óðinn Björn Þorsteinsson sér þriðja sætið með kast upp á 17.59m og varð Guðni Valur Guðnason, ÍR í fjórða sæti með kast upp á 16.96m
Hulda Þorsteinsdóttir stóð sig einnig frábærlega en hún sigraði stangarstökkið með stökk upp á 4.20metra. Hulda var hátt yfir öllum hæðum sem hún fór yfir og var mjög sannfærandi í keppninni. Hún lét hækka beint í 4.35metra þegar ljóst var að hún var orðin sigurvegari og vantaði bara herslumun á að hún færi þar yfir.
Af öðrum úrslitum hjá landsliðinu þá sigraði Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastið með kast upp á 60.03m og María Rún kastaði 46.50m og varð fjórða. María Rún hafði stuttu áður verið í hástökki þar sem hún fékk silfur með stökk upp á 1.71m
Í 800m hlaupi karla urðu íslendingar í 4. og 9. sæti. Kristinn Þór Kristinsson hljóp á 1:52,32 og Bjartmar Örnuson hljóp á 1:55.64
Í 100m hlaupi karla fékk Ari Bragi brons en Kolbeinn Höður var dæmdur með þjófstart (brást við á 0.06sek eftir byssunni).
Góður dagur að baki í San Marino og ÍR-ingar heldur betur að standa sig vel. Á morgun, miðvikudag er hvíldardagur í frjálsum en keppni hefst á ný á fimmtudaginn. Til hamingju ÍR og til hamingju Ísland! Áfram svona!
X