ÍR-ingar atkvæðamiklir á Smáþjóðaleikunum graphic

ÍR-ingar atkvæðamiklir á Smáþjóðaleikunum

03.06.2017 | höf: María Stefánsdóttir

Íslensku keppendurnir á Smáþjóðaleikunum stóðu sig með glæsibrag á öðrum og þriðja keppnisdegi.

ÍR-ingar voru atkvæðamiklir enda átti ÍR helming keppenda í frjálsíþróttum.

Ívar Kristinn Jasonarson keppti í 400m grindahlaupi karla og hafnaði í 2. sæti, hljóp á tímanum 52,67 sek sem er bæting um 3/100 úr sekúndu. Ívar Kristinn mætti síðan galvaskur til leiks í 400m, varð annar í mark á tímanum 48,28 sek, sem er hans þriðji besti árangur frá upphafi en 48,02 sek er hans besti tími frá 2013 en hans annar besti tími er einnig frá því ári. Ívar sýndi þarna mikinn styrk að koma til baka í sitt annað hlaup og hljóta einnig silfurverðlaun þar og að hlaupa svona nálægt sínum besta árangi.

Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason mætti til leiks í kringlukasti karla. Tryggði hann sér sigurinn í annarri tilraun með 59,98 m kasti og ársbesta árangri, fín byrjun á keppnistímabilinu en Guðni á best 63,50m.

Í 400 m hlaupi kvenna hljóp hin unga Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir glæsilegt hlaup, varð í 2. sæti á tímanum 55,72 sek og bætti sig um 14/100 úr sekúndu. Hún gerði svo ekki síður vel í 200m þegar hún hafnaði í 2. sæti í 200m, hljóp á 24,13 sek í löglegum vindi sem er gríðarleg bæting en Guðbjörg átti best 24,71 sek. Tíminn 24,13 sek er aldursflokkamet í flokki 16-17 ára og 18-19 ára. Í 200m hlaupinu varð Tiana Ósk Whitworth í 4. sæti á 24.53 sek, sem er einnig bæting hjá henni, en hún bætti sig líka mjög vel eða úr 25,47 sek! Tími Tiönu er lágmark á EM 19 ára og yngri.

Þorsteinn Ingvarsson keppti í þrístökki og varð fjórði með 14,43 m, sem hann stökk í fjórða og síðasta stökki. Áður hafði hann stokkið 14,35 m og 14,38 m. Þorsteinn á best 14,69 m en þessi árangur er jöfnun á hans 3. besta árangri sem hann náði í Andorra 2005. Glæsilegt hjá Þorsteini sem sigraði í langstökki á fyrsta keppnisdegi leikanna.

Guðmundur Sverrisson keppti í spjótkasti og hlaut bronsverðlaun með kasti sínu upp á 71,27 m en Örn Davíðsson kastaði manna lengst 74,81 m og sigraði með nokkrum yfirburðum.

Thelma Lind Kristjánsdóttir keppti í kringlukasti. Kastaði lengst 49,38 m og varð í 3. Sæti, hún á best 50,42 m síðan í fyrra og var því ekki langt frá sínu besta.

Íslendingar skiluðu síðan dýrmætum verðlaunum í hús í boðhlaupunum. Konurnar sigruðu í 4 x 100m boðhlaupi með 1 sek mun á tímanum 45,31 sek en þær Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir, Tiana Ósk, Guðbjörg Jóna hlupu þar ásamt stöllu sinni úr FH, Örnu Stefaníu Guðmundsdóttir. Þetta er nýtt Íslandsmet landssveitar en fyrra metið var 45.71 sek og var síðan árið 1996 en hlaupadrottningarnar Geirlaug Geirlaugsdóttir, Guðrún Arnardóttir, Helga Halldórsdóttir og Sunna Gestsdóttir áttu það met!

Í karlaboðhlaupunu varð Ísland einnig í fyrsta sæti á tímanum 40.45 sek og meira en einni sekúndu á undan silfursveitinni. Ívar Kristinn var í sveitinni ásamt Kolbeini Heði Gunnarssyni, Ara Braga Kárasyni og Trausta Stefánssyni. Íslandsmet landssveitar Íslands var 40,72 sek og er síðan árið 2015 og voru allir þeir sömu í sveitinni fyrir utan Tausta Stefánsson en Juan Ramon Borges var fjórði hlaupari.

Í 4 x 400m boðhlaupi sigraði Ísland, aftur með um 1 sek mun, en þar voru á ferðinni þær Hrafnhild, Guðbjög, Arna Stefanía og María Rún Gunnlaugsdóttir. Glæsilegt hjá stúlkunum en þær hlupu 3:47,64 sek en Íslandsmet landssveitar er 3:38 mín sett af sömu konum og áttu metið í 4 x 100m boðhlaupi á undan landsveitinni núna.

Karlarnir í 4 x 400m boðlaupi höfnuðu hins vegar í 4. sæti en voru ekki langt frá verðlaunum á 3:17 mín Ívar Kristinn hljóp í þeirri boðhlaupssveit en Íslandsmet landsveitar er 3:10 mín síðan árið 1959. Í þeirri sveit hljóp, ásamt þremu öðrum, Þorvaldur Þórsson sem nú er þjálfari hjá ÍR með áherslu á grindahlaup.

Glæsilegur árangur hjá Íslendingum síðustu daga og ljóst er að Smáþjóðaleikar eru góður vetvangur fyrir íslenska liðið til að keppa sig í gang fyrir sumarið, ná frábærum árangri og setja met og stilla saman strengi fyrir Evrópukeppni landsliða. Töluvert var um bætingar á besta árangri, eitt Íslandsmet féll í fullorðinsflokki og eitt aldursflokkamet. Ísland hefur því engu að kvíða er snýr að afreksmálum í frjálsum íþróttum í nánustu framtíð.
Fríða Rún Þórðardóttir

X