Silfurleikar ÍR

Silfurleikar ÍR voru haldnir í Laugardalshöll 24. nóvember sl. Á sjötta hundrað börn og unglingar 17 ára og yngri víðsvegar af landinu mættu til leiks, þar af rúmlega 100 ÍR-ingar, og var yngsti keppandinn bara fjögurra ára.

Alls unnu keppendur frá ÍR 19 verðlaun á mótinu, þar af tvenn gullverðlaun, átta silfurverðlaun og níu bronsverðlaun. Í elsta aldursflokknum, 16-17 ára, sigraði Helga Margrét Haraldsdóttir í kúluvarpi með nýju persónulegu meti, 14,71 m. Karl Hákon Ólafsson sigraði í þrístökki 15 ára pilta með 11,36 m stökki.

Ingvar Freyr Snorrason varð annar í kúluvarpi 16-17 ára pilta með kasti upp á 12,62 m og í sama aldursflokki hlaut Egill Smári Tryggvason silfurverðlaun í 800 m hlaupi og var tími hans 2:25,98 mín. Magnús Örn Brynjarsson hlaut einnig silfur í sömu grein í flokki 14 ára pilta og kom hann í mark á tímanum 2:22,09 mín sem er bæting hjá honum. Elma Sól Halldórsdóttir varð önnur í tveimur greinum í flokki 16-17 ára stúlkna, 60 m hlaupi, þar sem hún kom í mark á tímanum 8,20 sek og í þrístökki stökk hún 10,45 m. Í 200 m hlaupi hlutu ÍR-ingar silfurverðlaun í  flokki 13 ára pilta og stúlkna. Gunnlaugur Jón Briem kom í mark á 28,01 sek og Dóra Fríða Orradóttir á 28,70 sek. Í sama aldursflokki varð Bryndís Eiríksdóttir önnur í 600 m hlaupi stúlkna á nýju persónulegu meti, 2:03,88 mín.

Í flokki 16-17 ára komu fern bronsverðlaun til ÍR. Úlfur Árnason varð þriðji í 60 m grind á 9,18 sek og stökk 1,69 m í hástökki. Þorvaldur Tumi Baldursson hljóp 60 m á 7,49 sek og í Iðunn Björg Arnaldsdóttir hlaut bronsið í 200 m og var tími hennar 29,16 sek. ÍR-stúlkur fengu einnig brons í þeirri grein í aldursflokkum 13 og 14 ára. Hildur Magnúsdóttir Eirúnardóttir kom í mark á tímanum 29,31 sek og Brynja Hrönn Stefánsdóttir bætti sig og hljóp á 28,59 sek. Brynja Hrönn varð einnig þriðja í 60 m grind 14 ára stúlkna og var tími hennar 10,31 sek. Stefán Gunnar Maack varð þriðji í 600 m hlaupi 13 ára pilta og 1:57,59 mín sem er bæting hjá honum og í kúluvarpi 10-11 ára kastaði Sigurkarl Sigurkarlsson 8,08 m og varð þriðji. Auk ofangreind bættu fjölmargir ÍR-ingar árangur sinn á mótinu og settu persónuleg met. Nánari upplýsingar um úrslit má finna í mótaforriti Frjálsíþróttasambandsins.

Silfurleikar ÍR hafa verið haldnir samfellt frá árinu 1996, fyrstu árin undir nafninu Haustleikar ÍR. Árið 2006 var nafninu breytt í Silfurleikar ÍR og var það gert í tilefni þess að þá var liðin hálf öld frá því að ÍR-ingurinn Vilhjálmur Einarsson hlaut silfur á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Með Silfurleikunum vilja minnast þessa mikla afreks og er þrístökki því gert sérstaklega hátt undir höfði á leikunum.

X