ÍR-ingar á NM í víðavangshlaupum graphic

ÍR-ingar á NM í víðavangshlaupum

10.11.2018 | höf: María Stefánsdóttir

Norðurlandamótið í víðavangshlaupum fór fram í Laugardalnum 10. nóvember. Öll Norðurlöndin tefldu þar fram sterkum sveitum en mikil hefð er fyrir víðavangshlaupum í flestum landanna. Hlaupið var sannkallað drulluhlaup en vegna tíðarinnar var blautt á, sem er nokkuð óvenjulegt fyrir Ísland á þessum árstíma. Annars voru aðstæður hinar bestu, frábært veður og umgjörð hlaupsins til fyrirmyndar og sóma fyrir þá sem að viðburðinum stóðu.

Karlar 9 km
Hjá körlunum og Íslendingunum í heild átti Hlynur Andrésson ÍR besta daginn en hann varð í 7. sæti á 29.26 mín en Amanuel Gergis frá Svíþjóð sigraði á 28:55 mín. Glæsilegur árangur hjá Hlyni en Norðurlandaúrvalið í víðavangshlaupum er mjög sterkt. Guðni Páll Pálsson, Þórólfur Ingi Þórsson, Sæmundur Ólafsson, Vignir Már Lýðsson og Vilhjálmur Þór Svansson allir úr ÍR, röðuðu sér í 23. – 27. sætið.

Konur 7,5 km
Hjá konunum var keppnin hörð eins og í hinum flokkunum. Fyrst Íslendinganna í mark var Elín Edda Sigurðardóttir ÍR sem varð 16. á 31.09 mín, en Íris Anna Skúladóttir Fjölnir kom skammt á hæla henni. Arndís Ýr Hafþórsdóttir Fjölnir var um hálfri mínútu á eftir þeim og Helga Guðný Elíasdóttir Fjölni hljóp á 32:22 mín. Rannveig Oddsdóttir UFA og Anna Berglind Pálmadóttir UFA urðu í 19. og 20. sæti. Ísland varð í 4. sæti í stigakeppninni.

Ungkarlar 6 km
Daði Arnarson Fjölni, Dagbjartur Kristjánsson ÍR, Andri Már Hannesson ÍR og Hlynur Ólason ÍR röðuðu sér í 16. – 19. sætið en svipað var uppi á teningnum í þeirra hlaupi aðeins 2 sekúndur skildu að sigurvegarann, Hákon Stavik frá Noregi og þann næsta á eftir en lið Noregs sigraði með eins stigs mun á lið Svíþjóðar.

Ungkonur 4,5 km
Sara Mjöll Smáradóttir Breiðablik og Sólrún Soffía Arnardóttir FH urðu í 15. og 16. sæti en sigurvegari varð Mona Korkelaakso frá Finnlandi en aðeins 3 sek skildu að sigurvegarann og 2.-3. sætið svo jafnt var í lokinn en Finnland sigraði stigakeppni ungkvenna með 1 stigs mun á lið Danmerkur.

Mynd af Facebook-síðu Frjálsíþróttasamband Íslands.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

X