Silfurþrístökk Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 er enn merkasti atburður íslenskrar íþróttasögu. Að ósekju má segja, að fréttin af stökkinu hafi verið mesta íslenska íþróttafrétt aldarinnar. Í þeirri mannmergð sem á jörðinni lifði var aðeins einn maður er tók Vilhjálmi fram.
Slá má því föstu að landsmenn hafi fundið til stolts við fréttina, sem eins og fréttir af miklum afrekum gullaldardrengjanna nokkrum árum áður, veitti ferskum blæ inn í lognmollu hversdagsins; veitti roða í kinnar og vakti bros á vör. Samtímamenn segja þessa ungu íþróttamenn hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á íslenskt æskufólk; blásið henni sjálfstraust í brjóst.
Vilhjálmur stökk 16,26 metra í Melbourne og stóð það sem ólympíumet í tvær klukkustundir, eða þar til Brasilíumaðurinn Adhemar da Silva komst fram úr í lok keppninnar. Hann bætti um betur og stökk 16,70 á Meistaramóti Íslands á Laugardalsvelli í byrjun ágúst 1960. Til marks um ágæti þess stökks stendur það enn sem Íslandsmet, og engin breyting þar á fyrirsjáanleg.
Með árangrinum í Melbourne jukust kröfur til Vilhjálms sem eins af fremstu íþróttamönnum Evrópu. Hann stóðs prófið og einn sigur vannst af öðrum. Árið eftir vann hann þrístökkið í keppni Balkanlanda og Norðurlandanna og þrátt fyrir óheppni á EM í Stokkhólmi 1958 vann Vilhjálmur þar bronsverðlaun. Fimmta sæti varð hlutskipti hans á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og sjötta sæti á síðasta stórmótinu, EM í Belgrað 1962. Þætti svona afrekalisti glæsilegur og jafnvel gott betur enn þann dag í dag.
Afrek vilja gleymast þegar árin líða, en silfurstökk Vilhjálms er undantekning þar á. Nafn hans er fyrir löngu orðið klassískt í íþróttasögunni. Frjálsíþróttadeild ÍR gerir sitt til að halda merki síns gamla félaga á lofti, nú síðast með Silfurleikunum, árlegu innanhússmóti fyrir 17 ára og yngri íþróttamenn. Hefur það farið fram frá árinu 1996 og verið með allra stærstu mótum landsins. Á sjötta hundrað kepptu í síðasta móti 14. nóvember sl.
Að keppnisferli loknum vann Vilhjálmur ötullega að því að efla ungt fólk, fræða og hvetja á sviði íþrótta- og menntamála. Meðan hans naut við í höfuðborginni lagði hann mikið af mörkum í starfi frjálsíþróttadeildar ÍR. Af einstakri ósérhlífni eins og einkennandi er fyrir sjálfboðaliða sem haldið hafa íþróttahreyfingunni gangandi. Fyrir það allt er honum þakkað.
Að vonum hlaut Vilhjálmur margvíslegar viðurkenningar fyrir afrek sín. Eftir silfurstökkið í Melbourne stofnuðu Samtök íþróttafréttamanna til viðurkenningarinnar Íþróttamaður ársins. Til hennar vann Vilhjálmur fyrstu fimm árin eða oftar en nokkur annar. Þá var hann fyrstur manna tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2012.
Samúðarkveðjur sendum við eftirlifandi eiginkonu Vilhjálms, sonum og barnabörnum okkar bestu samúðarkveðjur. Hans verður vel minnst um ókomin ár.
f.h. frjálsíþróttadeildar ÍR,
Ágúst Ásgeirsson