Mikið um að vera í frjálsum um helgina

Arrnar Pétursson sigurvegari í Reykjavíkurmaraþoni 2017. Mynd frá ÍBR

Það verður nóg um að vera um helgina í frjálsum og götuhlaupum en hér heima verður keppt í fimmtarþraut kvenna og fleiri völdum greinum laugardaginn 3. mars í Laugardalshöll. Meðal keppenda í þrautinni verður Helga Margrét Haraldsdóttir sem hefur verið að standa sig vel og bæta sig töluvert að undanförnu. Verður spennandi að sjá hvernig henni tekst til í þrautinni en hún keppti á MÍ í þraut fyrir þremur vikum síðan þar sem henni tókst ekki að ná gildu stökki í langstökkinu og lauk ekki keppni. Helga snýr nú tvíefld til leiks og óskum við henni og öllum keppendum mótsins góðs gengis.

Daginn eftir keppir Arnar Pétursson í 10km götuhlaupi í Leverkusen í Þýskalandi. Arnar er einn af okkar allra bestu götuhlaupurum og verður spennandi að sjá hvernig hann kemur undan vetrinum, en Arnar er að undirbúa sig fyrir HM í hálfmaraþoni sem fram fer 23. mars nk. í Valencia á Spáni. Arnar hljóp hraðast allra Íslendinga í 10 km á götu sl. sumar og var 32:31 mín hans besti tími þá , en hann á best 31:55 mín síðan árið 2015. Óskum Arnari góðs gengis og fylgjumst með árangri hans hér á síðunni. Hér má sjá link inn á heimasíðu hlaupsins http://www.tsvbayer04-leichtathletik.de/veranstaltungen/strassenlauf/

Í kvöld keppir svo Aníta Hinriksdóttir í undanrásum 1500 m hlaups á HM innanhúss sem fer fram í Birmingham á Englandi og fer hennar riðill af stað kl. 19:58.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman.

Mynd frá ÍBR.

X