MÍ í fjölþrautum og MÍ öldunga

Verðlaunahafar í sjöþraut karla MÍ inni 2019

ÍR átti átta keppendur á meistaramótinu í fjölþrautum sem fram fór um helgina, en þó vantaði nokkra sterka keppendur sem voru fjarri vegna meiðsla.

Í sjöþraut karla voru fjórir ÍR-ingar skráðir til leiks, þeir Benjamín Jóann Johnsen, Reynir Zoëga og Árni Haukur Árnason, auk Einars Daða Lárussonar sem ekki hefur keppt í greininni frá árinu 2015 vegna meiðsla. Leikar fóru svo að Benjamín varð í öðru sæti, með 5200 stig, 144 stigum á eftir Skagfirðingnum Ísak Óla Traustasyni UMSS og bætti sinn besta árangur í sjöþraut verulega eða um 591 stig, en hann bætti sig í öllum greinum þrautarinnar, nema hástökki. Reynir Zoëga hafnaði í áttunda sæti með 3875 stig. Hvorki Einar Daði né Árni Haukur luku keppni. Einar Daði var í öðru sæti eftir fyrri dag keppninnar en heltist út lestinni eftir fyrstu grein seinni dags. Árni Haukur varð fyrir hnjaski í stangarstökkinu og tók ekki þátt í síðustu greininni, 1000 m hlaupi.

Egill Smári Tryggvason keppti í flokki 16-17 ára pilta þar sem hann hlaut bronsverðlaun. Líkt og Benjamín bætti hann sig í sex af sjö greinum þrautarinnar og hlaut 3311 stig, sem er bæting upp á 546 stig.

Verðlaunahafar í sjöþraut pilta 16-17 ára MÍ 2019
Verðlaunahafar í sjöþraut pilta 16-17 ára

Í fimmtarþraut kvenna átti ÍR einn keppanda, Helgu Margréti Haraldsdóttur en hún lauk ekki keppni eftir að hafa lent í vandræðum í langstökkinu og gert öll stökkin ógild. Í flokki 16-17 ára stúlkna varð Fanney Rún Ólafsdóttir fjórða með 2199 stig, aðeins 83 stigum á eftir stúlkunni í þriðja sæti þrátt fyrir að Fanney fengi engin stig úr síðustu greininni, 800 m hlaupi, þar sem hún lauk ekki hlaupinu.

Í fimmtarþraut pilta 15 ára og yngri átti ÍR einn keppanda, Berg Sigurlinna Sigurðsson. Hlaut hann 1894 stig og var aðeins 37 stigum frá bronsverðlaununum.

Um helgina fór einnig fram meistaramót öldunga. Á sjöunda tug keppenda á aldrinum 32-93 ára voru skráðir til leiks, þar af voru sjö ÍR-ingar.  Hlaut lið ÍR næstflest verðlaun á mótinu, alls 17, þar af átta gull og níu silfur. Aðeins UFA, með 17 keppendur, skákaði ÍR-ingum.

Fríða Rún Þórðardóttir, Gunnar Páll Jóakimsson, Helgi Hólm og Halldór Matthíasson hlutu tvenn gullverðlaun hvert. Fríða Rún bar sigur úr býtum í 400 m og 800 m hlaupi kvenna 45-49 ára og var tími hennar 1:12,00 mín í 400 og  2:33,76 mín í 800. Að auki varð hún önnur í 3000 m hlaupi á tímanum 11:14,28. Gunnar Páll keppti í flokki 60-64 ára karla þar sem hann sigraði í hástökki með stökki upp á 1,30 m og í kúluvarpi og var sigurkastið 9,77 m. Í flokki 65-69 ára karla sigraði Halldór  í 60 m grind á tímanum 13,38 sek og í kúluvarpi með kasti upp á 8,80 m. Þá varð hann í öðru sæti í fimm greinum til viðbótar; í 60 m á tímanum 10,03 sek, í 400 m hlaupi á tímanum 1:26,65 mín, í 800 m á 3:36,00 mín, hástökki þar sem hann stökk 1,10 m og fór yfir 2,50 m í stangarstökki. Í flokki 75-79 ára karla hlaut Helgi gullið í hástökki með stökki upp á 1,25 m og í kúluvarpi þar sem hann kastaði 8,59 m.

Helgi Heiðar Stefánsson hlaut silfrið í 3000 m hlaupi karla 35-39 ára og var tími hans 13:12,16 mín. Elías Rúnar Sveinsson keppti í flokki 65-69 ára karla og hafnaði í öðru sæti í kúlu og var lengsta kast hans 8,27 m.  Í kúluvarpi karla 80-84 ára  varð Jón H. Magnússon annar og kastaði hann 8,12 m.

Myndir frá öldungamótinu má sjá hér að neðan