Íþróttafélag Reykjavíkur

ÍR-konur sigurvegarar á MÍ og karlarnir í 2. sæti

Þrefaldur ÍR sigur í 3000 m hlaupi karla

ÍR-ingar urðu í dag Íslandsmeistarar í kvennaflokki á meistaramótinu í frjálsíþróttum innan húss, en mótið var haldið í Kaplakrika um helgina. Alls hlutu konurnar 29 stig, einu stigi meira en FH-konur sem lentu í öðru sæti. Í karlaflokki höfnuðu ÍR-ingar í öðru sæti, með 19 stig, þremur stigum á eftir FH.  FH-ingar sigruðu samanlagt eftir æsispennandi keppni þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í lokagreinunum, 4×400 m boðhlaupum kvenna og karla. Alls hlutu FH-ingar 50 stig en lið ÍR 48 stig, en þó nokkkuð var um forföll í liði ÍR-inga vegna veikinda og meiðsla. Lið Breiðabliks hafnaði í þriðja sæti í kvenna- og karlaflokki með samanlagt 21 stig.

Alls komu níu Íslandsmeistaratitlar í hlut ÍR-inga. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði í tveimur greinum, 60 m á tímanum 7,54 sek og 200 m á tímanum 24,31 sek auk þess sem hún hljóp lokasprettinn fyrir sigursveit ÍR-kvenna í 4×400 m boðhlaupi, en auk hennar voru í sveitinni þær Agnes Kristjánsdóttir, Dagbjört Lilja Magnúsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir, sem einnig sigraði í 800 m hlaupi kvenna og var tími hennar 2:17,40 mín, sem er persónulegt met. Sæmundur Óafsson sigraði bæði í 800 og 1500 m hlaupi karla og var tími hans 1:53,49 mín í 800 m og 4:06,70 í 1500 m. Í 3000 m hlaupi karla sigruðu ÍR-ingar þrefalt. Þórólfur Ingi Þórsson bar sigur á býtum og setti Íslandsmet í flokki 40-44 ára og var tími hans 9:09,89 mín. Vilhjálmur Þór Svansson varð annar á 9:14.92 mín og Vignir Már Lýðsson þriðju á 9:21,42 mín, sem er bæting hjá honum. Í 3000 m hlaupi kvenna voru fyrstu tvær í mark úr röðum ÍR-inga, þær Elín Edda Sigurðardóttir, sem sigraði á nýju persónulegu meti, 10:12,98 mín og Fríða Rún Þórðardóttir varð önnur á 10:51,95 mín. Mark Johnson sigraði í stangarstökki karla og fór hann yfir 4,50 m.

Nánari upplýsingar um úrslit mótsins má finna hér: http://mot.fri.is/MotFRI/SelectedCompetitionResults.aspx?Code=MI_2019Iur

Næsta helgi verður einnig spennandi hjá frjálsíþróttafólki en þá fer fram Bikarkeppni 15 ára og yngri á laugardag og Bikarkeppni FRÍ á sunnudag.

Elín Edda Sigurðardóttir Íslandsmeistari í 3000 m hlaupi, Fríða Rún Þórðardóttir önnur
Elín Edda Sigurðardóttir Íslandsmeistari í 3000 m hlaupi, Fríða Rún Þórðardóttir önnur og Helga Guðný Elíasdóttir Fjölni þriðja.

 

Sæmundur Ólafsson Íslandsmeistari í 1500 m hlaupi, Bjartmar Örnuson KFA í 2. sæti og Dagbjartur Kristjánsson þriðji.
Sæmundur Ólafsson Íslandsmeistari í 1500 m hlaupi, Bjartmar Örnuson KFA í 2. sæti og Dagbjartur Kristjánsson þriðji.

 

 

 

X