Mótsmet og bætingar hjá ÍR-ingum á MÍ 11-14 ára graphic

Mótsmet og bætingar hjá ÍR-ingum á MÍ 11-14 ára

10.02.2019 | höf: María Stefánsdóttir

Meistaramót Ísland 11-14 ára var haldið í Laugardalshöll um helgina. 341 keppandi frá 15 félögum og héraðssamböndum var skráður til leiks, þar af 45 ÍR-ingar og hafnaði lið ÍR í fimmta sæti í heildarstigakeppninni með 235 stig, sem er góð bæting frá sama móti í fyrra þegar ÍR hafnaði í sjötta sæti með 199 stig. Margir voru að stíga sín fyrstu skref á meistaramóti og jafnvel að keppa á sínu fyrsta frjálsíþróttamóti og margar góðar bætingar litu dagsins ljós.

ÍR-ingurinn Ellen María Ebenesersdóttir setti mótsmet í 60 m hlaupi 11 ára stúlkna og var tími hennar 9,12 sek. Ellen sigraði einnig í langstökki í aldursflokknum og stökk lengst 3,86 m sem er bæting hjá henni og á það einnig við um tímann í 60 m hlaupinu. Þá var hún í boðhlaupssveit ÍR í 4×200 m hlaupi 11 ára stúlkna sem hafnaði í þriðja sæti á tímanum 2:22,25 mín eftir harða keppni við sveitir FH og Breiðabliks sem urðu í fyrsta og öðru sæti. Aðrar í sveitinni voru þær Jóhanna Asha Hauksdóttir, Hildur Arna Orradóttir og Helga Lilja Maack.

Í 4×200 m hlaupi 14 ára stúlkna bar ÍR sveitin öruggan sigur úr býtum og kom í mark á tímanum 1:57,85 mín. Sveitina skipuðu Hildur Magnúsdóttir Eirúnardóttir, Embla Sól Óttarsdóttir, Birgitta Gunnarsdóttir og Dóra Fríða Orradóttir, en Dóra Fríða hlaut einnig bronsverðlaun í 600 m hlaupi 14 ára stúlkna og var tími hennar 1:56,93 mín sem er persónulegt met.

Stefán Hugi Sveinbjörnsson hlaut silfurverðlaun í 600 m hlaupi 11 ára pilta og var tími hans 2:01,18 mín sem er bæting hjá honum. Hann bætti sig einnig í hástökki þar sem hann stökk 1,17 m sem skilaði honum fimmta sætinu.

Boðhlaupssveit 14 ára pilta varð í öðru sæti á tímanum 1:55:59 mín, en í sveitinni voru  þeir Stefán Gunnar Maack, Phanu Prueangwicha, Gabríel Ingi Benediktsson og Gunnlaugur Jón Briem. Gunnlaugur Jón varð þriðji í 60 m hlaupi 14 ára pilta og var tími hans 8,40 sek. Hann keppti einnig í kúluvarpi þar sem hann bætti sig, kastaði 6,67 m. Gabríel Ingi varð þriðji í 60 m grindahlaupi 14 ára pilta og kom hann í mark á 10,72 sek sem er bæting hjá honum. Hann bætti sig einnig í 60 m, hljóp á 8,64 sek í undanúrslitum en náði ekki eins góðum tíma í úrslitahlaupinu og varð áttundi á 8,73 sek.

Iwo Egill Macuga Árnason varð þriðji í 60 m hlaupi 12 ára pilta á persónulegu meti, 9,21 sek, Hann bætti sig í tveimur greinum til viðbótar, 600 m hlaupi þar sem hann hafði í 8.-9. sæti á tímanum 2:02,91 mín og stökk 3,64 m í langstökki.

 

Mynd: Frjálsíþróttadeild Ármanns

 

X