ÍR-ingar eiga fimm keppendur á EM í frjálsum sem fram fer í Róm dagana 7.-12. júní n.k.
Aldrei áður hafa eins margir ÍR-ingar náð keppnisrétti á EM en Íslendingar tóku fyrst þátt í EM í frjálsum árið 1946 og þá kepptu 3 ÍR-ingar.
ÍR-ingar búa svo vel að hafa á að skipa mjög öflum, reyndum og afreksþjálfurum með yfirburðar þekkingu á sínu sviði sem hafa staðið þétt að baki afreksmönnum ÍR um margra ára skeið. Sem betur fer eru þessir þjálfarar fulltrúar tveggja kynslóða og allir hafa þeir reynslu af stórmótaþátttöku. Lítum nánar á hverjir hafa leitt afreksmennina okkar á EM.
Pétur Guðmundsson þjálfari Guðna Vals kringlukastara og Ernu Sóleyjar kúluvarpara. Pétur er Íslandsmethafið í kúluvarpi og var liðtækur í mörgum öðrum greinum s.s. kringlukasti, sleggjukasti, spjótkasti og stangarstökki áður en hann sérhæfði sig í kúluvarpinu. Pétur vann til brons verðlauna á EM innanhúss árið 1994 í kúluvarpi, keppti í Ólympíuleikunum í Seoul 1988 og varð margfaldur Íslandsmeistari í kúluvarpi á sínum ferli. Hann hefur þjálfað kúluvarp og kringlukast um 15 ára skeið hjá ÍR og verið valinn í fjölda landsliðsverkefna sem þjálfari á þeim tíma. Pétur keppti tvisvar á EM utanhúss, 1990 og 1994.
Einar Vilhjálmsson þjálfari Dagbjarts Daða í spjótkasti. Einar er Íslandsmethafi í spjótkasti og var á sínum tíma einn af bestu spjótkösturum heims. Keppti á þrennum Ólympíuleikum, 1984 þar sem hann náði 6. sæti, 1988 og 1992. Keppti einnig á fjölda Evrópumeistaramóta og Heimsmeistaramóta auk Grand Prix mótaraðarinnar sem er sambærileg við Demanatamótaröðina í dag. Einar var kjörinn Íþróttamaður ársins í þrígang eða árin 1983, 1985 og 1988 og var formaður Frjálsíþróttasambands Íslands um skeið. Hann hefur þjálfað spjótkasta ÍR-inga sl. 15 ár og í raun alla bestu karlaspjótkastara landins síðasta ártuginn og verið valinn í fjölda landsliðsverkefna sem þjálfari á þeim tíma. Einar keppti þrisvar á EM utanhúss, 1982, 1986 og 1990.
Bergur Ingi Pétursson þjálfari Elísabetar Rutar og Guðrúnar Karítasar sleggjukastara. Bergur Ingi er fyrrverandi Íslandsmethafi í sleggjukasti. Keppti á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og fleiri stórmótum s.s. HM. Bergur var liðtækur keppnismaður í mörgum frjálsíþróttagreinum áður en hann sérhæfði sig í sleggjukasti. Bergur hefur þjálfað sleggjukastara ÍR sl. 10 ár og í ár eru fjórar efstu á lista bestu sleggjukastskvenna landsins ÍR-ingar. Bergur hefur verið valinn í fjölda landsliðsverkefna sem þjálfari undanfarin ár.
Óðinn Björn Þorsteinson er með meistaragráðu í íþróttavísindum og er styrktarþjálfari Guðna Vals, Ernu Sóleyjar og Elísabetar Rutar og Guðrúnar Karítasar áður en þær fóru til Bandaríkjanna í til náms og keppni. Óðinn Björn varpaði kúlunni á sínum tíma yfir 20m og kringlunni yfir 60m og varð m.a. Íslandsmeistari í kúluvarpi 14 ár í röð á árunum 2004 til 2017. Hann keppti í kúluvarpi á Ólympíuleikunum 2012 í London og var fyrirliði karlalandsliðsins í frjálsíþróttum um margra ára skeið enda átti hann langan landsliðferil. Óðinn er fjölhæfur þjálfari og var um nokkurra ára skeið yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar ÍR en þjálfar nú öflugan og stóran unglingahóp deildarinnar ásamt því að skipuleggja styrktarþjálfun nær allra í meistara- og unglingaflokki deildarinnar. Óðinn hefur verið valinn í fjölda landsliðsverkefna frá því hann hóf þjálfun hjá deildinni árið 2014. Óðinn keppti tvisvar á EM utanhúss, 2010 og 2012.