ÍR-ingar stóðu sig glæsilega á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum um helgina. Tristan Freyr Jónsson varð Íslandsmeistari karla í sinni fyrstu karlaþraut með 5596stig. Með þessum árangri bætti Tristan Íslandsmet Einars Daða Lárussonar í flokki 20-22ára sem var áður 5567stig. Þetta er þriðji besti árangur Íslendings frá upphafi í greininni en aðeins faðir Tristans, hann Jón Arnar Magnússon og ÍR-ingurinn Einar Daði Lárusson hafa gert betur. Þess má geta að Tristan er nú í þriðja sæti á Evrópulistanum fyrir 22 ára og yngri og 7. sæti í karlaflokki það sem af er tímabilinu. Félagar Tristans, þeir Jón Gunnar Björnsson og Benjamín Jóhann Johnsen stóðu sig einnig með glæsibrag en báðir bættu sinn persónulega árangur verulega um helgina. Jón Gunnar bætti sig um 300 stig og náði fimmta sæti en Benjamín Jóhann bætti sig um tæp 1100 stig og varð í sjöunda sæti.
Við áttum einnig fyrirmyndar keppendur í 16-17 ára flokkum pilta og stúlkna en flest voru þau að keppa í sinni fyrstu fjölþraut. Helga Margrét Haraldsdóttir bætti sig í öllum greinum fimmtaþrautarinnar og varð Íslandsmeistari, aðeins 29 stigum frá Íslandsmeti í þessum aldursflokki. Þær Ingibjörg Sigurðardóttir og Þóra Kristín Hreggviðsdóttir stóðu sig einnig vel og náðu persónulegum bætingum í nokkrum greinum. Ingibjörg vann sig upp í annað sæti eftir glæsilegt 800m hlaup og Þóra Kristín varð í fimmta sæti. Þær eru allar á yngra ári í flokknum og fá því tækifæri að ári til að bæta árangur sinn í þessum flokki. Piltarnir stóðu sig einnig mjög vel en Kolbeinn Tómas Jónsson stóð uppi sem sigurvegari eftir nokkrar glæsilegar bætingar og bætingu í þraut. Þeir Úlfur Árnason og Mikael Daníel sem voru að keppa í sinni fyrstu sjöþraut bættu sig líka í nokkrum greinum, Úlfur var í öðru sæti, en Mikael í því fjórða.
Þetta glæsilega íþróttafólk og þjálfarar þeirra geta heldur betur verið stolt eftir svona bætingar-helgi. Til hamingju öll.
Eftirfarandi eru úrslit ÍR-inganna sett upp á einfaldann hátt:
Sjöþraut, Karlar (20 ára og eldri):
Tristan Freyr Jónsson: 5596 stig. Íslandsmeistari og Íslandsmet 20-22 ára
Jón Gunnar Björnsson: 4413 stig. Fimmta sæti
Benjamín Jóhann Johnsen: 4124 stig. Sjöunda sæti
Fimmtaþraut, 16-17 ára stúlkur:
Helga Margrét Haraldsdóttir: 3607 stig. Íslandsmeistari
Ingibjörg Sigurðardóttir: 3094 stig. Annað sæti
Þóra Kristín Hreggviðsdóttir: 2644 stig. Fimmta sæti
Sjöþraut, 16-17 ára piltar
Kolbeinn Tómas Jónsson: 4172stig. Íslandsmeistari
Úlfur Árnason : 3326 stig. Annað sæti
Mikael Daníel Guðmarsson: 3154 stig. Fjórða sæti
Þessa helgi fór einnig fram MÍ – öldunga en þar bættu ÍR-ingar heldurbetur í Íslandsmeistaratitils-safnið. Fríða Rún Þórardóttir, Gígja Gunnlaugsdóttir, Helgi Hólm, Jón H. Magnússon, Elías Rúnar Sveinsson, Halldór Mattíasson og Hafsteinn Óskarsson unnu öll Íslandsmeistaratitil í sínum greinum, sum fleiri en einni.
Glæsileg helgi að baki hjá ÍR-ingum á öllum aldri