Hlynur bætti 36 ára gamalt Íslandsmet

Hlynur Andrésson á RIG 2019. Mynd: FRÍ

Langhlaupararnir sitja svo sannarlega ekki auðum höndum þessa dagana.

Hlynur Andrésson varð í dag fyrstur Íslendinga til að hlaupa 10 km götuhlaup undir 30 mínútum þegar hann hljóp á 29,49 mín í Parrelloop hlaupinu í Hollandi í dag. Fyrra metið, 30,11 mín, átti Jón Diðriksson var það sett í Þýskalandi 1982. Hlynur á nú Íslandsmetin í 5000 m hlaupi, 10000 m hlaupi, 3000 m hindrunarhlaupi og í 10 km götuhlaupi.

Elín Edda Sigurðardóttir hljóp frábært hálft maraþon í Mílanó í dag. Hún kom á mark á 1:19,38 klst sem er bæting um 2 mín (splittin voru 18.45 mín, 37:03 mín, 56,08 mín). Elín varð númer 138 í mark af um 1530 þátttakendum. Árangur hennar er annar besti árangur Íslendings í greininni. Íslandsmetið er 1:11.40 mín, sett af Mörthu Ernstsdóttur í Reykjavíkurmaraþoni árið 1996 en Martha er þjálfari Elínar Eddu. Fyrr í vikunni hljóp Elín Edda í þriðja og síðasta hlaupinu í hlaupaseríu Bose og FH þar sem hún bar sigur úr býtum, hljóp 5 km á 18,21 mín, en Elín Edda sigraði í öllum hlaupunum þremur.

Þórólfur Ingi Þórsson hljóp einnig í því hlaupi og sigraði í karlaflokki á nýju aldursflokkameti karla 40-44 ára, 16,07 mín.

Í gær hljóp Arnar Pétursson hálft maraþon í Duisburg í Þýskalandi á 1:06,22 klst (splittin fyrir 5 km og 10 km voru 15,15 mín og 30,55 mín), sem er bæting um eina mínútu. Þetta er annar besti tími Íslendings í vegalengdinni, aðeins Kári Steinn Karlsson á betri tíma, 1:04,55 klst. Arnar sigraði í hlaupinu á nýju brautarmeti, 5,24 mín á undan næsta manni. Hlaupið í gær var liður í undirbúningi Arnars fyrir heilt maraþon í Rotterdam í apríl og gefur árangurinn góð fyrirheit.

Þá stendur yfir HM öldunga í Torun í Póllandi þessa dagana þar sem Fríða Rún Þórðardóttir er meðal keppenda, Í dag hljóp hún 3000 m þar sem hún hafnaði í áttunda sæti í flokki kvenna 45-49 ára og á morgun er hún skráð til leiks í 8 km víðavangshlaup.

 

 

X