Víðavangshlaup ÍR verður haldið í 104. sinn á sumardaginn fyrsta, 25. apríl kl. 12. Hlaupið er 5 km götuhlaup sem einnig er Íslandsmótið í 5 km götuhlaupi og hluti af Powerade sumarhlauparöðinni. Það má því búast við flestum af keppnishörðustu hlaupurunum á Íslandi sem berjast um Íslandsmeistaratitilinn í vegalengdinni. Einnig er hægt að taka þátt í 2,7 km skemmtiskokki (án tímatöku) sem hentar vel yngstu hlaupagörpunum og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppnishlaupum. Skemmtiskokkið er ræst 12:10 og er tilvalið fyrir fjölskyldur að sameinast þar og fagna komu sumarsins.
Árið 1916 var Víðavangshlaup ÍR haldið haldið í fyrsta sinn og þar með hófst sá íþróttaviðburður sem á sér lengsta samfellda sögu í íslenskri íþróttasögu. Það þótti við hæfi að halda hlaupið í miðbænum á sumardaginn fyrsta og síðan þá hefur hlaupið verið órjúfanlegur hluti af hátíðahöldum dagsins í Reykjavík. Hlaupaleiðin hefur þó tekið miklum stakkaskiptum, fyrst var það víðavangshlaup í orðsins fyllstu merkingu og hlaupið yfir í mýrina á svæðinu þar sem Íslensk erfðagreining stendur nú. Síðan fór hlaupið fram eingöngu í kringum Tjörnina en síðustu ár hefur hlaupaleiðin breyst og hlykkjast nú um Tryggvagötu, Laugaveg, Bankastræti og Lækjargötu, Sóleyjargötu, út að BSÍ og til baka kringum Tjörnina en endamark er í Pósthússtræti. Skemmtiskokkið hefst í Lækjargötunni til móts við MR en endar á sama stað og 5 km. Það verður því stöðugur straumur hlaupara á öllum aldri og af öllum getustigum á þessari leið og gaman fyrir áhorfendur að fylgjast með og hvetja hlauparana til dáða.
Forskráning er á https://netskraning.is/vidavangshlaupir/ og opin til kl. 11 á hlaupdag en unnt er að skrá sig á hlaupsstað frá kl. 09:30 til kl. 11. Einnig er hægt að skrá sig í ÍR heimilinu í Skógarseli þann 24. apríl milli kl. 16:30 og 19:00 en þangað geta hlauparar sótt keppnisgögn sínn. Afhending gagna á hlaupadegi verður í Ráðhúsi Reykjavíkur, á milli kl. 09:30 og 11:00 eða þar til 60 mínútum fyrir hlaup.
Þátttakendur eru hvattir til þess að mæta tímanlega á keppnisstað og hafa hugfast að það getur tekið nokkurn tíma að leggja bílum í miðbænum. Bent er á bílastæðahúsin eða að nýta sér þjónustu almenningsvagna. Kílómetrar og beygjur eru vel merktar með fánum og starfsmenn hlaupsins munu vakta helstu staði.
Annars eru þátttakendur hvattir til að kynna sér vel leiðarkort á netinu en heimasíða hlaupsins, þar sem hægt er að skrá sig og lesa sér til um hlaupið, er hér. https://netskraning.is/vidavangshlaupir/
ÍR býður alla velkomna í Víðavangshlaup ÍR 2019, hlökkum til að sjá ykkur sem flest.