Víðavangshlaup ÍR verður haldið í 103. sinn á sumardaginn fyrsta, 19. apríl. Hlaupið er 5 km götuhlaup en einnig er hægt að taka þátt í 2,7 km skemmtiskokki.
Víðavangshlaup ÍR var fyrst haldið á sumardaginn fyrsta árið 1916 og hefur síðan þá verið órjúfanlegur þáttur í hátíðahöldum dagsins í Reykjavík, en enginn íþróttaviðburður hér á landi á jafn langa samfellda sögu. Frá upphafi hefur hlaupaleiðin verið tengd miðbænum þótt ýmsar breytingar hafi verið orðið á henni.
Víðavangshlaup ÍR er jafnframt Íslandsmótið í 5 km götuhlaupi og fyrsta hlaup sumarsins í Powerade hlauparöðinni. Flestir bestu hlauparar landsins munu taka þátt og búast má við harðri baráttu um sæti og tíma.
Skemmtiskokkið er frábær skemmtun fyrir foreldra og börn sem vilja gera sér glaðan dag og fagna sumri með því að hlaupa saman.
Víðavangshlaup ÍR hefst stundvíslega kl. 12 og skemmtiskokkið 10 mínútum síðar. Sem fyrr verður hlaupið í miðborginni, sem skapar góða stemningu meðal hlaupara og vegfarenda, enda er auðvelt að fylgjast með og hvetja hlauparana áfram. Víðavangshlaup ÍR verður ræst í Tryggvagötu við Pósthússtræti en skemmtiskokkið fyrir framan MR í Lækjargötu. Endamark beggja er við Hitt húsið á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis.
Forskráning er á hlaup.is til miðnættis miðvikudaginn 18. apríl. Einnig verður hægt að skrá sig í ÍR heimilinu þann 18. apríl milli kl. 16:30-19:00. Á hlaupdag verður hægt að skrá sig í Hinu húsinu milli kl. 9:30-11:00.
Þátttakendur eru hvattir til þess að mæta tímanlega á keppnisstað og hafa hugfast að það getur tekið nokkurn tíma að leggja bílum í miðbænum Bent er á bílastæði t.d. í Hörpu og Ráðhúsi Reykjavíkur.
Við hvetjum alla til að taka þátt í skemmtilegu hlaupi á sumardaginn fyrsta!