Stórmót ÍR var haldið í Laugardalshöll í 23. sinn helgina 19.-21. janúar. Mótið á sér langa sögu og þar hafa margir stigið sín fyrstu skref í frjálsum, mörg afrekin hafa verið unnin og meðal annars hafa fimm Ólympíufarar verið meðal keppenda.
Um helgina kepptu 623 íþróttamenn frá 36 félögum og héraðssamböndum í flokkum 11 ára og upp í fullorðinsflokk auk þess sem 7 ára og yngri og 9-10 ára börn stóðu sig vel í þrautabrautinni þar sem þátttaka, gleði og liðsandi skipta mestu. Færeyingar áttu keppendur á mótinu að vanda og setja þau skemmtilegan svip á mótið. Í fyrsta sinn í sögunni var keppandi frá Ungmennafélagi Álftaness efstur á palli á Stórmótinu, það var Vigdís Rán Jónsdóttir sem sigraði í kúluvarpi 11 ára stúlkna. FH ingar unnu til flestra verðlauna eða 57 talsins, ÍR var með næst flest eða 44 talsins og Breiðablik fast á hæla ÍR-inga með 40 verðlaun.
Rúmlega 100 sjálfboðaliðar stóðu vaktina alla helgina og sáu til þess að mótið færi vel fram.
Engin Íslandsmet í flokkum fullorðinna voru sett á mótinu. Eitt met féll í stúlknaflokki (19 ára og yngri og 20-22 ára) og var það í 200m hlaupi og þar var á ferðinni enginn önnur en Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR og sigraði hún í bæði 60m og 200m hlaupum. Guðbjörg hljóp á 7.58 s í 60m sem er hennar besti árangur og 24.09 sek í 200m sem er þriðju besti árangur íslenskrar konu frá upphafi.
Hafdís Sigurðardóttir UFA stökk frábærlega í langstökkinu, stökk 6,49 m sem er nýtt mótsmet. Best á hún 6.54 m innanhúss (2016). Með þessum árangri er Hafdís aðeins 1 cm frá EM lágmarkinu, nú strax í upphafi keppnistímabils.
Aníta Hinriksdóttir ÍR sigraði örugglega í 800m, hljóp á nýju mótsmeti 2:05,98 mín sem er aðeins 98/100 s frá EM lágmarkinu sem hún er reyndar búin að ná með árangri sínum árið 2018. Önnur mótsmet sem féllu voru: 60m hlaup karla, Jóhann Björn Sigurbjörnsson UMSS, 6,93 sek, Agla María Kristjánsdóttir, Breiðabliki, þrístökk stúlkna 16-17 ára 11,58 m og 600m hlaup stúlkna 12 ára, Jónína Linnet FH 1:45,43 mín.
Næstu stóru mót eru MÍ 15-22 sem haldið verður um næstu helgi, MÍ 11-14 ára 9.-10. febrúar, MÍ í fjölþrautum 16.-17. janúar og MÍ aðalhluti sem haldið verður síðustu helgina í febrúar. Árangurinn á mótinu um helgina gefur góð fyrirheit um árangur og afrek.
Fríða Rún Þórðardóttir tók saman
Ljósmynd: Gunnlaugur Auðunn Júlíusson – birt með leyfi