Guðbjörg Jóna Ólympíumeistari ungmenna

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir Ólympíumeistari ungmenna

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir tryggði sér fyrr í kvöld Ólympíumeistaratitil í 200 m hlaupi á Ólympíuleikum ungmenna sem nú standa yfir í Buenos Aires í Argentínu. Guðbjörg kom í mark á tímanum 23,47 sek sem er nýtt Íslandsmet í greininni og bætti hún þar með eigið Íslandsmet sem hún setti í fyrri umferðinni sem hlaupin var á laugardagskvöld. Keppni á mótinu var með nokkuð óhefðbundnu sniði en í frjálsíþróttakeppninni voru tvær umferðir og gilti samanlagður árangur í báðum umferðum til sigurs. Miklir yfirburðir Guðbjargar í fyrri umferðinni tryggðu henni sigurinn, en þá hjóp hún á 23,55 sek og var eini keppandinn sem hljóp á undir 24 sek. Í seinni umferðinni kom hún í mark sjónarmun á eftir ítölsku stúlkunni Daliu Kaddari, sem hlaut silfrið.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppti í sleggjukasti og náði frábærum árangri í seinni umferðinni, sem var í gær. Þar átti hún þriðja lengsta kastið 63,52 m. Í fyrri umferðinni lenti hún hins vegar í vandræðum og náði ekki gildum köstum og hafnaði því í 16. sæti samanlagt. Engu að síður var þetta mjög góður árangur hjá þessari ungu og efnilegu íþróttakonu.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir
Elísabet Rut Rúnarsdóttir
X