Elín Edda hljóp sitt fyrsta heila maraþon í Hamborgarmaraþoninu, sem fram fór 28. apríl. og stóð sig hreint frábærlega, hljóp á 2:49,00 klst sem er annar besti tími sem íslensk kona hefur hlaupið á frá upphafi. Aðeins Martha Ernstsdóttir þjálfari hennar hefur hlaupið hraðar, 2:35,15 klst og var það árið 1999. Þetta er hraðasti maraþontími í 20 ár, þannig að árangurinn er mikill tímamótaárangur. Elín varð í 29. sæti kvenna í hlaupinu. Tími Elínar gefur 953 IAAF árangursstig sem er frábær árangur. ÍR óskar Elínu Eddu og Mörthu til hamingju með árangurinn.
Fríða Rún Þórðardóttir tók saman