Íþróttafélag Reykjavíkur

ÍR-ingar áberandi í götuhlaupum undanfarið

Verðlaunahafar í Icelandair hlaupinu 2019

ÍR-ingar hafa verið áberandi í götuhlaupum að undanförnu en almennt eru götuhlaup að draga að sér gríðarlegan fjölda fólks á öllum aldri sem kemur til að hafa gaman, bæta heilsuna og líka með það bak við eyrað að bæta sig aðeins frá hlaupi til hlaups.

Í Icelandair hlaupinu 2. maí, þar sem hlaupnir eru 7 km, röðuðu ÍR ingar sér í fyrsta, þriðja og fimmta sæti. Arnar Pétursson sigraði á 21:53, Þórólfur Ingi Þórsson varð 3. á 23:08 mín og Dagbjartur Kristjánsson 5. á 24:57 mín en Dagbjartur er að koma sterkur inn í götuhlaupin.

Í Neshlaupinu 4. maí sigraði Vignir Már Lýðsson í 15 km hlaupinu annað árið í röð á 52:56 mín á mun betri tíma en fyrir ári og Fríða Rún Þórðardóttir varð í 2. sæti, á 63:11 mín einnig annað árið í röð og bæting um tæpar 4 mín síðan í fyrra. Það var nokkuð kalt en fjöldamet var slegið í hlaupinu og hátt í 100 fleiri sem hlupu nú samanborið við í fyrra.

Í Puffin Run (20 km) bar Þórólfur Ingi Þórsson sigur úr bítum og kom um 5 mínútum á undan næsta hlaupara í mark, flottur árangur það hjá Þórólfi en einmuna verðurblíða var í Eyjum þennan dag og áttu þeir sem sáum myndir úr Eyjum erfitt með að trúa því að þær væru teknar 4. maí.

Í Kópavogsmaraþoninu sem fram fór 11. maí sigraði Vilhjálmur Þór Svansson 5 km hlaupið á 16:53 mín og Dagbjartur Kristjánsson varð 2. á fínni bætingu, 17:30 mín. Í kvennaflokki kom Andrea Kolbeinsdóttir sterk til baka eftir erfið meiðsli undanfarið ár. Hún varð 3. af öllum keppendum í mark á 18:20 mín og er greinilega í fínu formi enda búin að æfa vel þó svo að hlaupin hafi ekki verið mikil vegna meiðslanna. Andrea hefur verið valin til keppni á Smáþjóðaleikunum í Svarfjallalandi og óskum við henni góðs gengis við þann undirbúning.  Í 10 km hlaupinu sigraði Fríða Rún Þórðardóttir á 40:43 mín og kom hún 7. í mark en met þátttaka var í hlaupinu þrátt fyrir afar kaldann morgun en hitinn rétt skreið yfir frostmarkið áður en hálfamarþon hlaupararni fóru af stað kl. 9 og hinir um hálftíma síðar.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman.

Mynd af Facebook síðu Icelandair hlaupsins.

X