Það var blíðskapar veður í höfuðborginni í hádeginu þegar Víðavangshlaup ÍR var ræst í 104. sinn. 663 hlauparar á öllum aldri voru skráðir til leiks, þar af 589 í 5 km hlaup og 74 í 2,7 km skemmtiskokk. 5 km hlaupið er jafnframt meistaramót Íslands í 5 km götuhlaupi.
Í karlaflokki kom Arnar Pétursson úr ÍR fyrstur í mark og er það þriðja árið í röð sem hann ber sigur úr býtum í hlaupinu. Tími Arnars var 15:52 mín. Næstu fimm hlauparar í mark voru líka úr röðum ÍR, þeir Þórólfur Ingi Þórsson, sem sigraði í flokki 40-49 ára karla á 16:16 mín, Maxim Sauvageon á 16:25 mín, Vignir Már Lýðsson 16:31 mín, Vilhjálmur Þór Svansson 16:42 og Hlynur Ólason á 17:02 mín.
Í kvennaflokki sigraði María Birkisdóttir úr FH á 18 mínútum sléttum, á hæla hennar kom Arndís Ýr Hafþórsdóttir úr Fjölni á 18:07 mín og ÍR-ingurinn Fríða Rún Þórðardóttir varð þriðja og sigraði jafnframt í aldursflokki 40-49 ára kvenna á 19:07 mín.
Sigurvegarar í karla- og kvennaflokki fá að venju farandbikar til varðveislu auk gjafabréfs frá Macron, samstarfsaðila frjálsíþróttadeildar ÍR.
Nánari upplýsingar um úrslit má finna hér: https://timataka.net/vidavangshlaup2019/
Frjálsíþróttadeild ÍR þakkar öllum hlaupurum fyrir þátttökuna og óskar öllum gleðilegs sumars.