ÍR átti 5 lið í Bikarkeppnum FRÍ um sl. helgi. Karla- og kvennaliðið keppti í „fullorðins bikarnum“ og tvö stúlknalið og eitt drengjalið keppti í 15 ára og yngri bikarnum.
ÍR A, stúlkna og drengjaliðið kom sá og sigraði og var krýnt Bikarmeistari FRÍ 15 ára og yngri. Liðið hlaut 129,5 stig en næsta lið UFA-Smaherji hlaut 116 stig. Hjá stúlkunum sigraði ÍR-A með 83,5 stig og HSK-A varð í öðru sæti með 76 stig. Hjá drengjunum varð ÍR-A í fjórða sæti með 46 stig. ÍR A hlaut alls 9 verðlaun, 5 gull, 3 silfur og 1 brons. ÍR B liðið, eingöngu skipað stúlkum, hlaut 37 stig og var skammt á eftir liðum FH-B, Breiðabliks og Ármanns en stúlkurnar fimm, fæddar 2011 og 2012, voru allar að bæta sig eða alveg við bætingu í öllum keppnisgreinum.
ÍR eignaðist 5 bikarmeistara. Benedikt Gunnarsson í kúluvarpi, með kast upp 14.59 m, um 2 m lengra en sá sem hafnaði í 2. sæti. Bryndís María Jónsdóttir sigraði örugglega í 60m og bætti sig með tíma upp á 8.11 sek. Hún kom svo sterk til leiks í 300m og bætti sinn besta tíma og sett mótsmet 42.91 sek. Ólafía Þurý Kristinsdóttir sigraði örugglega í 1500m á 5:26.13 mín sem er alveg við bætingu og hún sigraði einnig í langstökkinu með 4,87 m. Sveit ÍR A stúlkna sigraði síðan 4 x 200m boðhlaupið örugglega. Rakel Gríma Arnórsdóttir varð 2. í 60m grind á 9.72 sek og bætti sinn besta árangur, og Katrín Tinna Oddsdóttir varð í 3. – 4. Sæti í hástökki með 1.50m sem er hennar hæsta stökk. Snædís Erla Halldórsdóttir kom sterk til leiks í kúlunni varpaði 10.12m og hlaut silfurverðlaun. Yosef Janbih El-hinoui varð annar í 1500m á 4:58.35 mín.
Í fullorðins bikarnum endaði ungt og efnilegt lið ÍR í 3. sæti eftir góða keppni við lið Breiðabliks en FH sigraði heildar stigakeppnina. Margir ungir íþróttamenn skipuðu okkar lið og stóðu þau sig með miklum sóma, sumir kepptu meira að segja í báðum keppnunum, fyrst 15 ára og yngri og svo fullorðinsbikar.
Bikarmeistara urðu Erna Sóley Gunnarsdóttir sem bar höfuð og herðar yfir sína keppnauta en hún setti mótsmet, 16.62 m, hún átti einnig kast upp á 16.60m og kastaði þar með 3,5 m lengra en næsta kona. Guðni Valur Guðnason var einnig yfirburðar maður í kúluvarpi karla með 17.20m kast um 3m lengra en næsti maður. Eir Chang Hlésdóttir sigraði örugglega í 400m á 57.00 sek og varð önnur í 60m, á 7,66 sek sem er hennar besti tími. Sveit ÍR varð í 2. sæti í 4 x 200m boðhlaupi kvenna og varð aðeins um 1 sek á eftir sveit FH í mark. Iwo Egill Machuga Árnason varð 2. í 60m á 7.24 sek, sem er bæting á hans besta tíma og varð hann aðeins 4/100 á eftir Íslandsmethafanum frá FH. Glæsilegur árangur það. Hilmar Ingi Bernharðsson varð 2. í 1500m, Illugi Gunnarsson 3. í 400m og Sölvi Hrafn Arnórsson einnig 3. í 60m grindahlaupi en hann er 16 ára og gerði sér lítið fyrir og hljóp á 106,7 cm karlagrindur.
Flott og ungt lið sem á framtíðina fyrir sér.