Fyrsta keppnisdegi fer nú að ljúka á Evrópumeistaramóti U23 í Póllandi.
Aníta Hinriksdóttir hljóp sig létt í gegnum undanrásir 800m, er með besta tímann 2:03,58 mín sem er um 1 sek betri tími en sú sem kemur næst á eftir henni. 24 stúlkur hlupu undanrásirnar. Frábært hjá Anítu. Úrslitahlaupið verður 15. júlí kl. 17:18 að íslenskum tíma.
Dagbjartur Daði Jónsson hafnaði í 17. sæti í spjótkastinu en 26 keppendur hófu keppni. Hann kastaði 68,41m sem er hans þriðju besti árangur frá upphafi en hann á best 70,15 m síðan fyrir hálfum mánuði og 68,97 m síðan á MÍ um sl. helgi. Dagbjartur hefði þurft að kasta 71,49m til að komast í úrslit. Fínn árangur hjá Dagbjarti sem er fæddur 1997.
Thelma Lind Kristjánsdóttir, sem einnig er fædd árið 1997, hafnaði í 21. sæti af 24 keppendum í kringlukasti með kasti upp á 46,83m. Hún á best 50,42 m frá því í fyrra sumar, en besta kast hennar í ár er 49,38 m frá því á Smáþjóðaleikunum í San Marino. Til að ná inn í úrslit hefði Thelma þurft að bæta sig um hálfan metra og kasta 50,92 m.
Af öðrum íslenskum keppendum er það að frétta að þeir Hilmar Örn Jónsson FH og Sindri Hrafn Guðmundsson Breiðabliki tryggðu sér í morgun sæti í úrslitum sleggjukastsins og spjótkastsins. Frábært hjá þeim. Kolbeinn Höður Gunnarsson FH komst ekki áfram í 100m hlaupinu en hleypur undanrásir 200m á morgun.
Fríða Rún tók saman