Gamlárshlaup ÍR verður haldið í 41. sinn á gamlársdag en hlaupið hefur aldrei fallið niður í 40 ára sögu þess. Hlaupið er eitt elsta götuhlaup landsins og er jafnframt á meðal fjölmennustu almenningshlaupanna sem haldin eru.
Gamlárshlaup ÍR er orðinn fastur liður í lífi margra og er þekkt fyrir skemmtilega áramótastemmingu þar sem margir þátttakendur mæta í skrautlegum búningum og fagna saman síðasta degi ársins. Þátttakendur og áhorfendur mega því eiga von á að sjá skrautlega og kynlega kvisti á hlaupum eftir Sæbrautinni á gamlársdag.
Í ár verður auk 10 km hlaups boðið upp á 3 km skemmtihlaup þannig að nú ættu sem flestir að geta tekið þátt, jafnt byrjendur sem börn og tilvalið fyrir fjölskyldur að taka sig saman á þessum síðasta degi ársins og taka þátt. Gleðin er ávallt við völd í Gamlárshlaupi ÍR, hvernig sem viðrar, en auk hefðbundinna keppnisbúninga mæta fjölmargir, jafnvel heilu hlaupahóparnir, til leiks íklæddir grímubúningum. Að sjálfsögðu er hart barist um að hljóta verðlaun fyrir frumlegasta búninginn. Aðrir taka hlutina hins vegar meira alvarlega og mæta vopnaðir sínu harðasta keppnisskapi og setja markið á ekkert nema bætingarhlaup á þessum síðasta degi ársins enda leiðin slétt og einföld. Fjöldi veglegra verðlauna er í boði bæði fyrir góðan árangur í ýmsum aldursflokkum, skemmtilega búninga og svo fá um 100 heppnir hlauparar fjölbreytt útdráttarverðlaun.
Á síðasta ári luku 1100 þátttakendur hlaupi og búast skipuleggjendur við enn fleiri taki þátt í ár. Fjöldi erlendra ferðamanna á meðal þátttakenda fer stækkandi ár frá ári og er mikil ánægja á meðal þeirra. Fátt virðist geta spillt fyrir þátttöku í þessu síðasta hlaupi ársins, en í ár er útlit er fyrir þokkalegt veður og fínar aðstæður á hlaupadag.
Gamlárshlaupið verður ræst við Hörpu kl. 12 og lýkur á sama stað. Leiðin er slétt og einföld og því ekki úr vegi að stefna á bætingahlaup á þessum síðasta degi ársins. Allt verður gert til að aðstæður verði eins góðar og hægt er miðað við árstíma. Öryggi hlaupara og starfsmanna verður í forgangi og verður lokað fyrir umferð um hluta Sæbrautar á meðan á hlaupinu stendur og umferð takmörkuð á öðrum hlutum leiðarinnar. Bílstjórar eru hvattir til að sýna hlaupurum og starfsmönnum ítrustu tillitssemi.
Forskráning er á www.hlaup.is en henni lýkur á miðnætti þann 30. desember. Þeir sem forskrá sig fyrir kl. 16:00 þann 30. desember geta sótt gögnin sín í ÍR heimilið, Skógarseli 12 á milli kl. 16:30 og 18:30 þann sama dag. Annars verða gögn afhent í Hörpu miðvikudaginn 31. desember milli kl. 9:30 og 11:00 og þá verður einnig hægt að skrá sig í hlaupið.