Hinrik Óli Gunnarsson er Íslandsmeistari einstaklinga 2023

Hinrik Óli Gunnarsson varð í gærkvöldi Íslandsmeistari einstaklinga 2023 í fyrsta sinn en Hinrik er á 19. aldursári. Munar aðeins nokkrum vikum á því að Hinrik sé yngsti einstaklingurinn í keilu á Íslandi til að landa þessum titil en Steinþór Geirdal Jóhannsson vann titilinn árið 2000 þá einnig á 19. ári.

Linda Hrönn Magnúsdóttir, Íslandsmeistari 2022, varð í 2. sætinu í kvennakeppninni en Katrín Fjóla Bragadóttir Keilufélagi Reykjavíkur varð Íslandsmeistari kvenna. Nanna Hólm Davíðsdóttir ÍR varð í 3. sæti.

Mótið fór fram um liðna helgi þegar forkeppni var leikin en alls voru leiknar tvær 6 leikja blokkir. Alls tóku 11 karlar frá ÍR þátt í mótinu og 4 konur.

Hinrik varð 6. eftir forkeppnina með 209,0 í meðaltal en 16 efstu keilararnir komust áfram í milliriðilinn sem leikinn var á mánudagskvöldið þar sem önnur 6 leikja blokk var leikin. Hinrik hélt sæti sínu þar og komst því inn í 8 manna undanúrslit þar sem leikið er maður á mann. Vann hann sig þar upp í efsta sætið með því að sigra 5 af 7 viðureignum sínum en til úrslita kepptu 3 efstu keilararnir að loknum undanúrslitum.

Í úrslitum er leikið þannig að allir 3 leika einn leik og dettur lægsta skorið út. Hinrik fór örugglega áfram í lokaleikinn sem hann vann síðan með 218 pinnum gegn 199 frá Mikael Aroni Vilhelmssyni úr KFR. Í þriðja sæti varð síðan Aron Hafþórsson úr KFR.

Til gamans má geta að þeir þrír sem fóru í úrslitin eru 16 til 19 ára og hefur það aldrei gerst í keilunni hér heima að aðilar sem tilheyra U21 hópum taka efstu sætin í keppninni. Framtíðin er því greinilega björt og munu þessir strákar sem og fleiri láta til sín taka á komandi árum.

Myndir: Helga Sigurðardóttir / Halldóra Þórarinsdóttir

Hinrik Óli Gunnarsson að vonum kampa kátur með bikarinn

 

 

 

 

 

 

 

Linda Hrönn, Katrín Fjóla Íslandsmeistari og Nanna Hólm

 

 

X