Frá aðalfundi keiludeildar ÍR

Í gær fór fram aðalfundur keiludeildar ÍR 2017 en boðað var til hans með tilkynningu til liða og fréttum á vef félagsins og samfélagsmiðlum. Ágætis mæting var á fundinn. Dagskrá fundarins var skv. venju, farið yfir skýrslu stjórnar og reikninga félagsins. Mjög góð afkoma er af rekstrinum 2016 en þar kemur kannski helst til að minna var um mótahald og einnig það að EYC2016 var hér á landi í fyrra og því kostnaður við það mun lægri en oft áður.

Stjórn deildarinnar var sjálfkjörin. Jóhann Á Jóhannsson ÍR Broskörlum var endurkjörinn formaður. Karen Hilmarsdóttir ÍR SK, Sigríður Klemensdóttir ÍR TT, Sigrún Guðmundsdóttir ÍR BK og Svavar Þór Einarsson ÍR Blikk voru sjálfkjörnir aðalmenn og þeir Einar Hafsteinn Árnason ÍR Naddóður og Daníel Ingi Gottskálksson ÍR S voru sjálfkjörnir varamenn.

Undir öðrum málum var m.a. borin fram tillaga stjórnar um að henni verði heimilt að skilyrða greiðslu mótsgjalda keppenda í úrslitakeppnum við að leikmenn klæðist aðal- eða liðsbúning sínum. Lögð var fram breytingatillaga og hún samþykkt að leikmenn verði að vera með merki félagsins á búning.

Einnig var rætt um mótahald ÍR á komandi misserum og lagt til að ÍR skipi sérstaka RIG nefnd sem komi að skipulagi þess móts. Tvö framboð komu í þá nefnd sem ber að fagna. Stjórn mun þó þurfa að ákveða áframhaldandi framkvæmd móta og verður það gert á næstu vikum því nauðsynlegt er að skipuleggja þessi mót í tíma.

Fundargerð aðalfundar er væntanleg hér á vefinn innan skamms. Stjórn deildarinnar þakkar þeim sem mættu.