Tveir riðlar voru spilaðir í undankeppninni í keilu á Reykjavíkurleikunum í dag. Maria Rodriguez frá Kólumbíu er enn með forystu í keppninni en fast á hæla hennar fylgja stöllur hennar úr bandarísku atvinnumannadeildinni Daria Pajak frá Póllandi og Danielle McEwan frá Bandaríkjunum. Arnar Davíð Jónsson úr KFR, sigurvegari Evrópumótaraðarinnar 2019 er síðan í 4. sæti. Efst íslenskra kvenna er Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR í 21. sæti.
Jón Ingi Ragnarsson úr KFR og Andrés Páll Júlíusson ÍR spiluðu báðir fullkominn leik í dag eða 300 pinna.
Þetta voru fyrstu fullkomnu leikirnir sem náðst hafa á mótinu en ansi margir keilarar hafa verið hársbreidd frá fullkomnum leik.
Síðasti riðillinn í undankeppninni fer fram í fyrramálið laugardaginn 1. febrúar klukkan 9 í Keiluhöllinni í Egilshöll.
Að honum loknum kemur í ljós hvaða 24 keilararnir tryggja sér sæti beint í úrslitakeppnina sem hefst á sunnudaginn klukkan 9.
Stöðuna í undankeppninni og aðrar nánari upplýsingar um mótið má finna á rigbowling.is.
Streymt er frá öllum riðlum og úrslitaviðureignum á Facebook.