Kumitemót var haldið á vegum karatedeildar ÍR í ÍR heimilinu Skógarseli 12 fimmtudaginn 1. júní 2017. Um þrjátíu krakkar frá karatedeild ÍR og Víkings tóku þátt. Mótið var æfingarmót í kumite en það er bardagahluti karateíþróttarinnar og var liður í að kynna fyrir þeim keppnisreglur í kumite áður en þau mega keppa formlega við 12 ára aldur. Mótið var haldið fyrir stelpur og stráka á aldrinum 6 – 11 ára. Keppt var í sjö flokkum eftir aldri, kyni og þyngd.
Haldin eru þrjú beltapróf á ári. Á vorönn eru tvö tímabil og var annað beltapróf vetrarins 2017 haldið í síðasta æfingartíma fyrir sumarfrí, dagana 7., 8. og 9. júní. Um sextíu iðkendur þreyttu beltapróf í þetta sinn og er það næstum tvöföldun frá því á sama tíma í fyrra. Iðkendur lögðu mikinn metnað í æfingar og margir voru duglegir að bæta við sig gráðum með því að taka þátt í keppni á mótum, þar sem félagið náði glæsilegum árangri í vetur.
Í sumar verður í fyrsta sinn boðið upp á sumarnámskeið í karate fyrir börn á aldrinum 6 – 9 ára. Leiðbeinendur eru meðal fremsta karatefólks landsins, þau Aron Anh Ky Huynh, Mattías B. Montazeri og Kamila Buracewska. Námskeiðin verða þrjú, hvert námskeiðið er vika í senn, mánudag til föstudags frá kl: 09:00-12:00 og kostar 6.500 kr. Námskeiðin byrja 12. júní og eru haldin í Undirheimum í íþróttahúsinu Austurbergi, inngangur sundlaugarinnar í Breiðholti.
Mynd: Branka Alexandarsdóttir