Karlalið ÍR í úrvalsdeild, Domino´s deildinni í körfubolta tryggði sér á dögunum annað sætið í deildarkeppninni með sigri á Keflavík á útivelli. Árangur ÍR-inga í deildarkeppninni nú er sá besti í rúmlega 40 ár eða frá því að ÍR varð Íslandsmeistari síðast árið 1977.
Átta liða úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn sjálfan hefjast 15. mars kl. 19:15 í Hertz-hellinum þegar ÍR-ingar leika gegn liði Stjörnunnar. Til að komast í fjögurra liða úrslit þurfa ÍR-ingar að vinna þrjá leiki í fimm leikja seríu gegn Stjörnunni. Lið ÍR hefur aðeins einu sinni í sögu úrslitakeppninnar komist í 4 liða úrslit en það var árið 2005.
Stemmningin á leikjum ÍR-liðsins í vetur í Hertz-hellinum í Seljaskóla hefur verið mögnuð og nú er tækifæri fyrir alla ÍR-inga og Breiðholtsbúa að fjölmenna og styðja topplið ÍR í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.
Áfram ÍR.