Íþróttafélag Reykjavíkur blæs til fagnaðar í nýopnuðu parkethúsi í Skógarseli. Það hefur verið löng biðin eftir því að geta haldið almennilegt ball og nú er loksins komið að því. Bandmenn og Salka Sól trylla lýðinn frá 22:00 og fram eftir kvöldi. Matarvagnar mæta á svæðið tilbúnir að seðja tóma maga og barinn opinn frá 21:00 og þar til balli lýkur.
Hljómsveitin Bandmenn ætti að vera öllum kunn en hún var stofnuð árið 2015 af Pétri Finnbogasyni. Fyrsta formlega framkoma hljómsveitarinnar var á stórballi í Iðnó á Menningarnótt 2015. Bandmenn spiluðu á stóra sviðinu í Herjólfsdal um Verzlunarmannahelgina og því má treysta á að þeir komi eldheitir og í banastuði til leiks á Haustfagnaðinn.
Salka Sól er ein af ástsælustu söngkonum okkar Íslendinga. Auk þess að koma fram undir eigin nafni hefur hún m.a. rappað með Reykjavíkurdætrum og sungið og samið tónlist með reggae hljómsveitinni AmabAdamA. Salka hlaut titilinn söngkona ársins á íslensku tónlistarverðlaununum árið 2015. Salka er þekkt fyrir að heilla áhorfendur með góðum söng og mikilli útgeislun sem smitar út frá sér hvar sem hún kemur fram.
Félagið hlakkar til að sjá sem flesta á ballinu og hvetur gesti til þess að halda upphitunarpartí í sínum götum.