Í nýrri skýrslu sem ÍBR lét gera um ánægju unglinga í íþróttum á árinu 2016 kemur margt fróðlegt fram. Sérstök skýrsla var gerð fyrir ÍR þar sem svör 179 unglinga í 8.-10. bekk grunnskóla sem æfa með ÍR voru greind. Svipaðar kannanir voru gerðar árin 2010 og 2012 og því hægt að bera saman niðurstöður og hugsanlega meta þróunina á sex ára tímabili. Hér eru niðurstöður svara við fjórum mjög mikilvægum spurningum.
Finnst þér vanalega gaman á æfingum hjá íþróttafélaginu sem þú æfir hjá?
Árið 2010 voru 80% iðkenda ÍR ánægðir og var það undir meðaltalsánægju í Reykjavík sem var þá 84%. Árið 2016 finnst 89% unglinganna sem æfa hjá ÍR gaman á æfingum og er ánægjan yfir Reykjavíkurmeðaltalinu sem er 88%.
Ertu ánægð/ur með íþróttafélagið þitt?
Árið 2010 voru 82% ÍR- unglinga ánægðir með félagið en meðaltalsánægja í Reykjavík var 83%. Árið 2016 er ánægja ÍR-unglinganna komin í 90% og upp fyrir Reykjavíkurmeðaltalið sem er 87%.
Ertu ánægð/ur með íþróttaþjálfarann þinn hjá íþróttafélaginu?
Árið 2010 voru 76% unglinga ÍR ánægðir með þjálfarann sinn sem var vel undir Reykjavíkurmeðaltalinu 80%. Árið 2016 er ánægja ÍR-unglinganna komin í 86% sem er yfir Reykjavíkurmeðaltalinu sem er 85%.
Ertu ánægð/ur með æfingaaðstöðuna hjá íþróttafélaginu?
Árið 2010 voru 79% ÍR-unglinga ánægðir með aðstöðuna sem þeir höfðu til æfinga og keppni. Sú ánægja var í samræmi við Reykjavíkurmeðaltalið. Ánægja ÍR-unglinga hefur aukist mjög frá 2010 því árið 2016 eru 87% ÍR-unglinga ánægðir með aðstöðuna sem er langt yfir Reykjavíkurmeðaltalinu sem er 80%.
Stóraukin ánægja ÍR-unglinga
Árið 2010 eru ÍR-unglingar neðan við meðaltal í Reykjavík í ánægju með félagið, þjálfarann og hvort skemmtilegt sé á æfingum. Árið 2016 eru ÍR-unglingar hinsvegar mun ánægðari með þá fjóra þætti sem spurt var um og eru að meðaltali ánægðari en gengur og gerist í öðrum félögum í Reykjavík. Af þessum tölum má ætla að unglingastarf ÍR hafi tekið miklum framförum og meiri framförum en að meðaltali hjá öðrum íþróttafélögum í Reykjavík á tímabilinu 2010-2016.
Til hamningju ÍR-ingar