Heiðursviðurkenningar ÍR-inga veittar þann 20. desember sl. graphic

Heiðursviðurkenningar ÍR-inga veittar þann 20. desember sl.

22.12.2021 | höf: ÍR

Þann 20. desember sl. voru veittar viðurkenningar fyrir sjálfboðastarf í þágu félagsins en hefð er fyrir því að veita verðlaunin einu sinni á ári.

Að þessu sinni voru veitt tólf silfurmerki ÍR, tvö gullmerki ÍR og einn stórkross heiðursfélaga ÍR.

Félagið er afar þakklátt þessum stórkostlegu ÍR-ingum sem hafa af óeigingirni og alúð lagt rækt við starfið á margvíslegan hátt í gegnum árin og áratugina.

Það er sannarlega ómetanlegt að eiga svo gott fólk í félaginu – Áfram ÍR!

Silfurmerki ÍR 2021

Inga Dís Karlsdóttir – Frjálsíþróttadeild
Magnús Sigurjónsson – Judodeild
Felix Woelflin – Judodeild
Matthías Pétur Einarsson – Knattspyrnudeild
Addý Ólafsdóttir – Knattspyrnudeild
Kristín Steinunn Birgisdóttir – Knattspyrnudeild
Atli Guðjónsson – Knattspyrnudeild
Matthías Imsland – Handknattleiksdeild
Guðný Inga Ófeigsdóttir – Handknattleiksdeild
Ólafur Haukur Hansen – Handknattleiksdeild
Ásdís Ásgeirsdóttir – Handknattleiksdeild
Kristín Ingimundardóttir – Handknattleiksdeild

Gullmerki ÍR 2021

Elín Freyja Eggertsdóttir  – Handknattleiksdeild
Jóhann Ásgrímsson – Aðalstjórn

Heiðursfélagi ÍR 2021

Haukur Loftsson – Handknattleiksdeild

 

Hér að neðan má sjá myndir af þeim sem höfðu tök á að veita verðlaununum viðtöku.
Vigfús Þorsteinsson, formaður aðalstjórnar sá um að afhenda verðlaunin.
Til hamingju ÍR-ingar!

 

Inga Dís - Silfurmerki 2021

Inga Dís Karlsdóttir – Silfurmerki ÍR “Frjálsíþróttadeild ÍR tilnefnir Ingu Dís Karlsdóttur (Ingveldi Hafdísi Karlsdóttur) til silfurmerkis ÍR. Inga Dís tók fyrst þátt í Gamlárshlaupi ÍR fyrir um 10 árum síðan en tók við sem hlaupstjóri hlaupaviðburða Frjálsíþróttadeildar ÍR fyrir rúmum 6 árum og þar á meðal Gamlárshlaupinu. Ingu Dís hefur, ásamt vöskum hópi aðstoðarfólks úr ÍR, tekist að auka áhuga almennings á almenningshlaupunum svo um munar en rúmlega 2.000 manns tóku þátt í síðasta Gamlárshlaupi ÍR sem haldið var 2019. Inga Dís hefur á þessum tíma unnið þrekvirki við að færa götuhlaupaviðburði ÍR upp á annað plan. Frjálsíþróttadeild ÍR þakkar Ingu Dís kærlega fyrir vel unnin störf.”

 

Felix Woelflin

Felix Woelflin – Silfurmerki ÍR “Felix Exequiel Woelflin hefur komið að þjálfun víða innan ÍR. Felix er fjölhæfur þjálfari og hefur verið með styrktar og tækniþjálfun í fótbota og frjálsum íþróttum. Felix er nú orðin aðalþjálfari Júdódeildar og hefur deildin nú þegar unnið 3 Íslandsmeistaratitla undir hans stjórn. Felix er enn fremur sannur félagsmaður og er alltaf tilbúinn að aðstoða og veita hjálparhönd þegar á þarf að halda. Við væntum mikils af Felix í framtíðinni í uppbyggingu júdó hjá félaginu.”

Atli Guðjónsson - Silfurmerki ÍR

Atli Guðjónsson – Silfurmerki ÍR “Atli varð fyrst ÍR-ingur sem leikmaður árið 2009 en hefur síðan þá sinnt ótal störfum innan félagsins. Hann spilaði sem leikmaður fyrir liðið til ársins 2014 en síðan þá hefur Atli tekið virkan þátt í sjálfboðastörfum og stjórnarstörfum fyrir knattspyrnudeild. Hann hefur setið í Þorrablótsnefnd ÍR undanfarin ár, setið í stjórn knattspyrnudeildarinnar og verið óþreytandi stuðningsmaður ÍR þess á milli. Knattspyrnudeild ÍR er afar þákklát fyrir framlag Atla.”

Ásdís Ásgeirsdóttir - Silfurmerki ÍR

Ásdís Ásgeirsdóttir – Silfurmerki ÍR “Ásdís hefur verið sjálfboðaliði á nánast öllum kvennaleikjum og fleiri viðburðum handboltans undanfarin ár. Ásdís hefur unnið óeigingjarnt starf í mörg ár fyrir félagið og hefur verið gríðarlega öflug í fjáröflunum fyrir meistaraflokkana ásamt yngri flokkum ÍR. Hún á svo sannarlega skilið silfurmerki ÍR fyrir sín störf í þágu handboltans hjá ÍR”

Kristín Ingimundardóttir - Silfurmerki ÍR

Kristín Ingimundardóttir – Silfurmerki ÍR “Kristín hefur starfað ötullega að málefnum handknattleiksdeildarinnar í mörg ár. Hún á þrjár dætur sem allar hafa æft handbolta með ÍR og fylgdi stúlkunum sínum í öll þau verkefni sem fylgja því að halda utan um barnastarf í handboltanum og meira til. Nú síðast hefur Kristín tekið að sér hlutverk ritara á leikjum meistaraflokka karla og kvenna og á stóran hlut af því að umsögn eftirlitsmanna varðandi ritara- og tímavarðaborðið er alltaf: “Hér er allt í toppstandi eins og vanalega!” Okkur er sönn ánægja að fá að tilnefna Kristín Silfurmerkis ÍR.”

Ólafur Haukur Hansen - Silfurmerki ÍR

Ólafur Haukur Hansen – Silfurmerki ÍR “Óli Haukur hefur verið mjög virkur í starfi handboltans og hefur fylgt tveimur dætrum sínum eftir sem eru gríðarlega efnilegar og í sterkum árgöngum. Óli hefur verið formaður barna- og unglingaráðs, verið í stjórn deildarinnar, ásamt því að taka að sér öll verkefni sem þarf hverju sinni hvort sem það er að dæma eða lýsa leikjum, eða rétta fram hjálparhönd með einhverjum öðrum hætti. Við erum afar þakklát fyrir framlag Óla til félagsins.”

Elín Freyja Eggertsdóttir - Gullmerki ÍR

Elín Freyja Eggertsdóttir – Gullmerki ÍR “Elín Freyja hefur verið dugleg að taka þátt í starfi handknattleiksdeildar síðustu ár. Hún á tvo syni sem hafa báðir gengið upp alla yngri flokka félagsins og leikið með meistaraflokki. Elín Freyja hefur setið í unglingaráði og er núna í stjórn handknattleiksdeildar. Þá hefur hún undanfarin ár verið í lykilhlutverki í heimaleikjaráði ÍR og er alltaf tilbúin til að taka að sér verkefni af öllum toga þegar á þarf að halda. Hún er því vel að því komin að hljóta gullmerki ÍR en hún fékk einmitt silfurmerkið árið 2013.”

Jóhann Ásgrímsson - Gullmerki ÍR

Jóhann Ásgrímsson – Gullmerki ÍR “Jóhann hefur komið að ýmsum þáttum í starfi ÍR. Jóhann hlaut silfurmerki ÍR árið 2007 en þá hafði hann m.a. setið í sjórn Knattspyrnudeildar og gengt bæði hlutverki formanns og gjaldkera. Nú síðustu ár bauð Jóhann fram krafta sína og veitti félaginu aðstoð við gerð ársreiknings og færslu bókhalds ásamt því að koma að yfirferð og mótun tillagna er snúa að innri reglum. Jóhann hefur reynst félaginu vel á mörgum sviðum og því vel við hæfi að veita honum gullmerki ÍR og er félagið afar þakklátt fyrir hans framlag.”

Haukur Loftsson - Heiðursfélagi ÍR

Haukur Loftsson – Heiðursfélagi ÍR “Haukur Loftsson kom inn í starf handknattleiksdeildar með börnum sínum, Guðnýju Hólm, Aroni Daða og Fídesí. Það kom strax í ljós hversu mikill félagsmaður hann er. Öll fjölskylda Hauks, pabbi, bræður, svili og mágkonur voru öll dregin inn í félagið líka og virkjuð í hin ýmsu störf, leidd af Hauki sjálfum. Haukur er virkur á öllum vígstöðvum. Hann heldur ásamt öðrum uppi getraunastarfi félagsins, fjáraflar fyrir meistaraflokkana og er alltaf liðtækur í aðstoð þegar halda þarf yngriflokka mót. Svo er hann ómissandi í heimaleikjaráði karla og kvenna en þegar leikir meistaraflokka fara fram er hann alltaf mættur, boðinn og búinn til að aðstoða. Haukur er ómetanlegur félagi handknattleiksdeildarinnar. Það er alveg sama hvaða verkefni þarf að klára, fyrir Hauki er ekkert verkefni of smátt eða stórt. Hann er sannur heiðursfélagi en Haukur hlaut einmitt gullmerki ÍR árið 2002.”

X