Vormót ÍR fór fram á Laugardalsvell i í kvöld. Alls voru 144 keppendur skráðir til leiks víðs vegar af landinu. Mikið var um góðan árangur en mótið byrjaði vel hjá ÍR-ingum þegar Ívar Kristinn Jasonarson sigraði 400m grindahlaup örugglega á tímanum 52,55 sekúndum sem er stutt frá hans besta árangri.
Kastararnir okkar stóðu sig vel. Thelma Lind Kristjánsdóttir sigraði kringlukast kvenna með kast upp á 51,55metra og Guðni Valur Guðnason sigraði örugglega í karlaflokki með kast uppá rúmlega 61 metra. Dagbjartur Daði sigraði spjótkastið með kast upp á 70,86 og góða kastseríu og Elísabet Rut Rúnarsdóttir sigraði sleggjukast í flokki 16-17 ára stúlkna þegar hún kastaði 3kg sleggjunni 57,60metra.
Stangarstökkið fór fram innanhúss en í kvennaflokki sigraði Hulda Þorsteinsdóttir örugglega þegar hún fór yfir 3,70metra. ÍR-ingar stóðu sig einnig vel í bæði stuttu hlaupunum og millivegalengdum en Sæmundur Ólafsson sigraði 800m hlaup karla á tímanum 1:56,68 og Andrea Kolbeinsdóttir sigraði 1500m hlaup kvenna þegar hún hljóp á 5:02,52 mínútum.
Í 100m hlaupi kvenna sigraði nýkríndi Íslandsmethafinn í 200m hlaupi hún Guðbjörg Jóna á tímanum 12,04sekúndum og í 200m hlaupi sigraði Tiana Ósk Whitworth á tímanum 24,21 sekúndum sem er persónuleg bæting og aðeins 1/100sek frá lágmarki á HM U20. En Tiana er þegar búin að ná lágmarki á HMU20 í 100m hlaupi.
Með síðustu greinum mótsins var hið sögulega og skemmtilega Kaldalshlaup. Kaldalshlaupið er kennt við Jón Kaldal sem var einn fremsti langhlaupari Íslands á fyrri hluta síðustu aldar og keppti hann m.a. á Ólympíuleikunum í Antwerpen árið 1920. Sigurvegari í Kaldalshlaupinu í ár var Bjartmar Örnuson sem keppir fyrir KFA á tímanum 9:00,44mínútur. ÍR-ingarnir Vilhjálmur Þór Svansson, Þórólfur Ingi Þórsson og Vignir Már Lýðsson komu þar næstir í mark.
Keppt var í fleiri greinum á mótinu en hér hafa þær greinar sem ÍR-ingar sigruðu ásamt hinu sögulega Kaldalshlaupi komið fram. Þónokkrir ungir ÍR-ingar sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppni í fullorðinsflokkum kepptu ásamt öðrum eldri og reyndari keppendum. Heildarúrslit mótsins má sjá á heimasíðu FRÍ
Á myndinni má sjá keppendur í Kaldalshlaupinu ásamt sonarsyni Jóns Kaldals, honum Ómari Kaldal. Við þökkum Ómari kærlega fyrir að koma og afhenda viðurkenningu fyrir hlaupið og óskum keppendum á mótinu til hamingju með fínan árangur.