Þrefaldir Bikarmeistarar ÍR

Það má með sanni segja að ÍR-ingar hafi átt stóran dag í gær en 110 ára afmæli félagsins var fagnað með trompi á ýmsum stöðum í Breiðholti sem endaði með glæsilegu boði í ÍR-heimilinu.

Frjálsíþróttadeildin fagnaði afmælinu aðeins utan Breiðholtsins en þó á æfingasvæði félagsins í Laugardalshöll þegar hún sigraði þrefaldan sigur í Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands.

Það var mikil samheldni í liðinu og keppnisandinn svakalegur. Allt virtist ganga upp eftir óskum og margt fór umfram vonir.  ÍR-ingar tefldu fram A og B liði  í keppninni en við vorum eina félagið sem gerði það sem sýnir enn og aftur breiddina í liðinu.

A-liðið í kvennakeppninni tók forystu strax eftir fyrstu greinar dagsins, hélt forystu allan tíman og sigraði mjög örugglega. A-liðið í karlakeppninni var í harðri baráttu við FH-inga þar til í síðustu greininni en enduðu ÍR-karlar sem sigurvegarar, einu stigi á undan FH-ingum.

Hér á eftir er farið yfir árangur ÍR-inga á mótinu:

Helga Margrét Haraldsdóttir stóð sig með glæsibrag og varð önnur í 60m grindahlaupi á 9.08 og fyrsta í þrístökki með 11.30m.

Börkur Smári Kristinsson varð í þriðja sæti í stangarstökki karla með stökk upp á 4.30m sem verður að teljast glæsilegt þar sem Börkur hefur verið frá æfingum og keppnum í nokkur ár. Þorvaldur Tumi Baldursson keppti fyrir B-liðið og átti stökk upp á 3.20m.

Helgi Björnsson sem er að koma til baka á þessu keppnistímabili með glæsibrag eftir nokkra fjarveru náði að bæta sig í 60m grindahlaupi og stela fjórða sætinu í þeirri grein með hlaup upp á 8.90sek. Árni Haukur Árnason, fyrirliði B-liðsins keppti einnig í grindahlaupi þrátt fyrir að vera nýstaðinn uppúr flensu og náði sjötta sæti.

Thelma Lind Kristjánsdóttir, fyrirliði í A-liði kvenna, náði þriðja sæti í kúluvarpi með kast upp á 13.01metra. Þess má geta að stúlkurnar sem voru á undan henni í keppninni eru báðar þjálfaðar af ÍR-þjálfaranum Pétri Guðmundssyni. Rut Tryggvadóttir keppti fyrir B-liðið og náði fimmta sæti.

Í 60metra hlaupi kvenna sigraði Tiana Ósk Whitworth mjög örugglega þegar hún hljóp á 8.62sek og Vilborg María Loftsdóttir sem keppti fyrir B-liðið náði fimmta sæti með hlaup upp á 8.20 sek. Vilborg María keppti einnig í þrístökki fyrir B-liðið og náði þar þriðja sætinu.

Í 60m hlaupi karla sigraði Ívar Kristinn Jasonarson þegar hann bætti sig og hljóp á 7.00 sekúndum eftir hörkuhlaup við FH-inginn Ara Braga sem varð að lúta í lægra haldi fyrir Ívari. Ívar hljóp einnig vel í 400m hlaupi og náði þar öðru sæti, einum hundraðshluta á eftir næsta manni. Einar Luther Heiðarsson sem keppti fyrir B-liðið varð í sjöunda sæti í hlaupinu.

Í 1500m hlaupi kvenna varð Andrea Kolbeinsdóttir í öðru sæti með bætingu þrátt fyrir átök í hlaupinu en stangarstökksstöng lenti á henni í miðju hlaupi. Andrea lét það ekki á sig fá og hélt ótrauð áfram, bætti sig og náði öðru sæti. Iðunn Björg Arnaldsdóttir sem keppti fyrir B-liði bætti sig einnig og náði fjórða sæti í hlaupinu.

Arnar Pétursson náði þriðja sæti í 1500m hlaupi karla með ársbesta tímann sinn í því hlaupi. Andri Már Hannesson sem keppti fyrir B-liðið bætti sig í hlaupinu og varð í sjöunda sæti.

Þorsteinn Ingvarsson sigraði nokkuð örugglega í langstökkinu með stökk upp á 7.35metra og Árni Haukur sem keppti fyrir B-liðið náði sjötta sæti.

Í hástökki kvenna bætti Kristín Lív Svabo Jónsdóttir sig og stökk 1.69metra og náði öðru sæti í greininni, Helena Sveinborg Jónsdóttir sem var fyrirliði í B-liði kvenna náði sjötta sæti með stökk upp á 1.55metra.

Í kúluvarpi karla sigraði Óðinn Björn Þorsteinsson fyrirliði karlaliðsins örugglega með kast upp á 17.81metra. Jón Gunnar Björnsson sem keppti fyrir B-liðið náði sjötta sæti með kast upp á 11.58metra.

Í 400m hlaupi kvenna sigraði Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir örugglega á 57.06sek og Dagbjört Lilja Magnúsdóttir sem keppti fyrir B-liðið náði fjórða sæti þegar hún hljóp á 62.01sek og bætti sinn besta tíma.

Í 400m hlaupi karla varð Ívar Kristinn Jasonarson annar á 48.47sek eins og fram hefur komið og Kristján Godsk Rögnvaldsson hljóp á 51.86sek og náði fjórða sæti fyrir B-liðið.

Í 4x200m boðhlaupi kvenna náði ÍR-A að setja glæsilegt Íslandsmet þegar þær hlupu á 1:38,45sek. Þær Tíana Ósk, Guðbjörg Jóna, Helga Margrét og Hrafnhild Eir voru þær sem náðu þessum glæsilega árangri. B-sveitin stóð sig líka vel og hljóp sig í fjórða sæti í greininni. B-sveitina skipuðu þær Vilborg Maria, Agnes Kristjánsd., Þóra Kristín Hreggviðsd. og Dagbjört Lilja Magnúsd.

Í 4x200m boðhlaupi karla náði ÍR-A að skila keflinu í mark í öðru sæti. Í sveitinni hlaupu Ívar Kristinn, Helgi Björns., Þorsteinn Ingvars. og Kolbeinn Tómas. B-sveitin náði fimmta sæti en í þeirri sveit voru þeir Birgir Jóhannes, Árni Haukur, Andri Már og Snorri Sigurðs.

X