Stórmótahópur FRÍ

Lið ÍR sigurvegarar á MÍ 15-22 ára janúar 2019

Birtur hefur listi yfir þá 13 íþróttamenn sem náð hafa tilskyldum lágmörkum í Stórmótahóp FRÍ 15-22 ára 2019-2020. Frjálsíþróttadeild ÍR getur stært sig af því að af þessum 13 frábæru íþróttamönnum koma 8 frá okkur en það eru:

Andrea Kolbeinsdóttir (1999) – keppnisgreinar 3000m, 5000m, 3000m hindrun

Andrea æfir og keppir í Bandaríkjunum þar sem hún er í námi í læknisfræði. Síðastliðið sumar bætti hún eigið Íslandsmet í 3000 metra hindrunarhlaupi á HM U20 í Finnlandi þar sem hún kom í mark á tímanum 10:21,26 mínútum. Sá tími dugar henni til þess að komast á EM U23 sem fer fram næsta sumar. Þess má til gamans geta að síðasta sumar hljóp hún einnig tals­vert und­ir lág­marks­tíma fyr­ir EM U23 þegar hún vann 10.000 metra hlaup á Vor­móti ÍR en þar hljóp hún á 35:25,38 mín­út­um en lág­markið fyr­ir EM er 36:15,00 mín­út­ur. Með þessum tíma setti hún aldursflokkamet í flokki 20-22 ára og aðeins Martha Ernsts­dótt­ir og Ragnheiður Ólafs­dótt­ir hafa hlaupið vega­lengd­ina hraðar af ís­lensk­um kon­um.

Dagbjartur Daði Jónsson (1997) – keppnisgrein spjótkast

Eftir nokkur meiðsli náði Dagbjartur sér á strik síðastliðið sumar og náði góðum bætingum. Hann bætti persónulegan árangur sinn um fjóra metra þegar hann kastaði lengst á Javelin festival í Jena með kasti upp á 76,19 metra. Með því kasti náði hann lágmarki á EM U23 næsta sumar.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir (2002) – keppnisgrein sleggjukast

Síðasta keppnistímabil var Elísabetu nokkuð erfitt enda var hún meiðslum hrjáð. Þrátt fyrir það gerði hún sér lítið fyrir og setti Íslandsmet á kastmóti UMSB þegar hún kastaði 62,16m, þá 16 ára gömul! Elísabet keppti á EM U18 ára síðasta sumar og á Ólympíuleikum ungmenna sem fóru fram í Argentínu í október á síðasta ári. Hún hefur þegar náð lágmarki á EM U20.

Erna Sóley Gunnarsdóttir (2000) – keppnisgrein kúluvarp

Erna Sóley er við háskólanám í Bandaríkjunum og hefur hún tekið stórstígum framförum undanfarin misseri. Hún gerði sér lítið fyrir og náði bronsi á EM U20 síðasta sumar í Svíþjóð. Þá varð hún einnig Norðurlandameistari U19. Hún á á stúlknametið í flokki 18-19 ára í kúluvarpi og er það 14,98 metrar. Erna hefur nú þegar náð lágmarki á EM U20 sem fer fram næsta sumar.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (2001) – keppnisgreinar 60m, 100m, 200m og 400m

Nú á dögunum var Guðbjörg Jóna útnefnd frjálsíþróttakona ársins, íþróttakona Reykjavíkur og varð ein af tíu efstu í kjöri Íþróttamanns ársins 2019. Á þessu ári jafnaði hún Íslandsmet innanhúss í 60m hlaupi og bætti Íslandsmetin í 100m og 200m utanhúss. Næsta stórmót Guðbjargar er EM U20 sem fer fram sumarið 2020 þar sem hún hefur náð lágmörkum í 100, 200 og 400 metra hlaupi.

Helga Margrét Haraldsdóttir (2001) – keppnisgrein sjöþraut

Helga Margrét er mjög fjölhæf frjálsíþróttakona en hún komst inn í stórmótahópinn með góðum árangri í kúluvarpi. Hún keppti m.a. í þeirri grein síðasta sumar á EM U18. Hún hefur þó átt við erfið meiðsli að stríða að undanförnu en hún er mjög einbeitt að ná sér á strik og komast sem fyrst á æfingar og út á keppnisvöllinn.

Tiana Ósk Whitworth (2001) – keppnisgreinar 60m, 100m og 200m

Eins og Andrea og Erna Sóley er Tiana nú í háskólanámi í Bandaríkjunum. Hún jafnaði nú á dögunum Íslandsmetið í 60 metra hlaupi utanhúss, sbr. umfjöllun hér. Tiana keppti á HM U20 síðasta sumar og hefur náð lágmarki á EM U20 í 100 og 200 metra hlaupi sem fer fram næsta sumar.

Thelma Lind Kristjánsdóttir (1997) – keppnisgrein kringlukast

Thelma Lind er fjórði ÍR-ingurinn í þessum hópi sem er við nám í Bandaríkjunum. 36 ára Íslandsmet Guðrúnar Ingólfsdóttur í kringlukasti varð fyrir barðinu á Thelmu síðastliðið  sumar þegar hún kastaði 54,69 metra á kastmóti UMSB, en með því kasti bætti hún sinn besta árangur um tæpa tvo metra. Með því kasti náði hún lágmarki á EM U23 sem fer fram næsta sumar.

Nánari upplýsingar um Stórmótahópinn er að finna hér.

Frjálsíþróttasamband Íslands birti einnig nýlega nýjan úrvalshóp unglinga 15-19 ára. Þar eigum við ÍR-ingar 7 fulltrúa en þeir eru:

Bergur Sigurlinni Sigurðsson – 100m og 300m grindahlaup

Elísabet Rut Rúnarsdóttir – sleggjukast

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir – 100m, 200m og 400m

Ingibjörg Sigurðardóttir – 200m, 400m og 400m grindahlaup

Ingvar Freyr Snorrason – kringlukast

Katharina Ósk Emilsdóttir – kúluvarp

Magnús Örn Brynjarsson – 300m grindahlaup

Nánari upplýsingar er að finna hér.

Ofangreindum einstaklingum eru færðar innilegar hamingjuóskir.

Frjálsíþróttadeild ÍR vill að lokum færa unglinganefnd FRÍ kærar þakkir fyrir þeirra vinnu undanfarin misseri.

 

Aðrar færslur