Stórmót ÍR 21.jan – 22.jan

26. Stórmót ÍR fer fram í Laugardalshöll um helgina. Búast má við góðri stemningu en yfir 500 keppendur frá 28 félögum eru skráðir til keppni. Margt af fremsta frjálsíþróttafólki landsins mun keppa á mótinu ásamt upprennandi stjörnum frjálsra íþrótta. Keppt verður í fjölþraut barna 10 ára og yngri og í hefðbundnum greinum í öllum aldursflokkum 11 ára og eldri.

Til mikils er að vinna á mótinu en ÍR-ingar munu í samstarfi við skrifstofufyrirtækið Regus veita þeim sem setja Íslandsmet á mótinu 100.000 kr. verðlaunafé. Þá munu þau sem ná lágmarki á stórmót fá 300.000 kr. í sinn hlut. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkir fjárhagshvatar eru veittir á frjálsíþróttamóti á Íslandi.

Nokkur Íslandsmet í hættu

„Okk­ur langaði til þess að koma með eitt­hvað nýtt inn í frjálsíþrótta­heim­inn hérna heima og þetta varð lend­ing­in,“ sagði Fríða Rún Þórðardótt­ir, formaður frjálsíþrótta­deild­ar ÍR og margreynd afrekskona í hlaupum, í sam­tali við mbl.is. „Ég veit hvað er hægt að gera til þess að styðja við af­reksíþrótta­fólkið okk­ar og það kost­ar háar fjár­hæðir að vera með af­reksíþrótta­fólk á sín­um snær­um. Það kost­ar líka pen­ing að styðja við bakið á þeim í þeirra keppn­is­ferðum.“

„Við búum vel að því að vera í sam­starfi með Reg­us í þessu verk­efni en fyr­ir­tækið sér­hæf­ir sig í leigu á skrif­stofu­hús­næði fyr­ir ein­yrkja. Á sama tíma er orðið mjög erfitt að fá fyr­ir­tæki til þess að styðja við bakið á íþrótta­hreyf­ing­unni en von­andi vek­ur þetta fram­tak at­hygli fleiri fyr­ir­tækja um það hvað hægt sé að gera,“ sagði Fríða Rún.

Nokkur Íslandsmet verða í hættu á mótinu og því góðar líkur á því að einhver fari heim með þyngri buddu eftir helgina. Fjögur Íslandsmet hafa nú þegar fallið á yfirstandandi innanhússtímabili. Baldvin Þór Magnússon hefur sett tvö þeirra, í 5000m hlaupi og mílu hlaupi, en hann er búsettur í Bandaríkjunum þar sem hann stundar nám og verður því fjarri góðu gamni um helgina. FH-ingurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson, sem nýlega bætti Íslandsmetið í 60m hlaupi, verður einnig fjarri góðu gamni. Liðsfélagi hans og nýbakaður Íslandsmethafi í þrístökki, Irma Gunnarsdóttir, er hins vegar skráð til keppni og eygir góða möguleika á verðlaunafénu. Það gera einnig fleiri keppendur og hér að neðan verður farið yfir þau helstu.

Irma Gunnarsdóttir, þrístökk

Irma stórbætti Íslandsmetið í þrístökki kvenna þegar hún stökk 13,13m á Stökkmóti FH þann 17. desember á síðasta ári. Hún varð um leið fyrsta íslenska konan til að stökkva yfir 13 metra innanhúss en fyrra metið var 12,83m og var í eigu Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur. Irma átti frábæra stökkseríu og bætti metið raunar í þrígang á mótinu. Hún hefur ekki keppt í þrístökki síðan hún sló Íslandsmetið en hún keppti í langstökki fyrr í mánuðinum þar sem hún stökk 6,14m og jafnaði sinn besta árangur. Irma er því greinilega í hörkuformi og getur vel bætt eigið Íslandsmet um helgina. Lágmarkið á EM innanhúss sem fer fram í Istanbúl í byrjun mars er 14,32m og þyrfti Irma því að bæta sig um rúman metra til að vinna 300.000 króna verðlaunféð.

Daníel Ingi Egilsson, þrístökk

FH-ingurinn Daníel Ingi kom eins og stormsveipur inn í frjálsíþróttaheiminn á síðasta ári. Hann varð til að mynda Íslandsmeistari í langstökki og þrístökki bæði innan- og utanhúss í fyrra. Daníel hefur haldið uppteknum hætti á þessu tímabili. Hann náði góðum árangri á Áramóti Fjölnis þann 29. desember þegar hann stökk 15,08m í þrístökki. Einungis Kristinn Torfason hefur stokkið lengra innanhúss en Íslandsmet hans er 15,27m og var sett á Stórmóti ÍR árið 2011. Daníel á best 15,31m utanhúss og getur því vel bætt met Kristins um helgina. Lágmarkið á EM innanhúss í greininni er 17,02m og því nokkuð frá besta árangri Daníels.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, 60m hlaup

ÍR-ingurinn og Íslandsmethafinn í 60m hlaupi innanhúss, Guðbjög Jóna, er skráð til keppni í 60m hlaupið. Hún hefur ekki enn keppt á tímabilinu og keppti ekki heldur síðasta sumar vegna meiðsla. Hún er því svolítið óskrifað blað en það er samt sem áður alltaf hætta á metum þegar Guðbjörg mætir á brautina. Hún hefur náð að æfa vel í vetur og virðist í hörkuformi. Guðbjörg setti Íslandsmet í sínu fyrsta hlaupi á síðasta innanhússtímabili þegar hún hljóp á 7,43s. Það met stendur enn og áhugavert verður að sjá hvort hún endurtaki leikinn nú um helgina. Lágmarkið á EM innanhúss er 7,24s og þarf Guðbjörg því stórbætingu til að ná því.

Tiana Ósk Whitworth, 60m hlaup

Tiana Ósk, æfingafélagi Guðbjargar, er einnig skráð í 60m hlaupið. Hennar besti árangur í greininni er 7,45s frá því í fyrra og er aðeins tveimur hundraðshlutum frá Íslandsmeti Guðbjargar. Þetta verður einnig fyrsta hlaup Tiönu á árinu og því spennandi að sjá hvernig hún kemur undan vetri. Tiana hefur reynslu af því að slá Íslandsmet á Stórmóti ÍR en það gerði hún árið 2018 þegar hún hljóp á 7,47s. Það ríkir alltaf mikil spenna þegar Tiana og Guðbjörg mætast á brautinni og líklega verður engin breyting þar á um helgina.

Sögufrægt mót

Stórmót ÍR hefur verið stærsta frjálsíþróttamót á Íslandi síðustu ár. Mótið var haldið í fyrsta sinn á 90 ára afmælisári ÍR árið 1997 og fór þá fram í gömlu Laugardalshöllinni. Á fyrsta mótinu keppti fremsta frjálsíþróttafólk landsins við sterka erlenda keppendur. Vala Flosadóttir keppti í stangarstökki og setti heimsmet unglinga og Norðulandamet þegar hún stökk yfir 4,20m. Hún hafnaði í öðru sæti á eftir hinni tékknesku Danielu Bartovu sem stökk 4,31m og setti Evrópumet. Tugþrautarkappinn Jón Arnar Magnússon spreytti sig í þríþraut á móti Bandaríkjamanninum Ricky Barker og Tékkanum Robert Zmelik sem varð Ólympíumeistari í tugþraut í Barcelona árið 1992. Jón Arnar vann þrautina nokkuð örugglega. Þá hrósaði Íslandsmethafinn Þórdís Gísladóttir sigri í hástökki eftir harða keppni við hina finnsku Kaisu Gustafsson. Þær stukku báðar 1,83m sem er enn Stórmótsmetið í greininni.

Mótið hefur verið haldið á hverju ári síðan 1997 að undanskildu árinu í fyrra þegar mótinu var aflýst vegna heimsfaraldursins. Farsæl saga mótsins heldur því áfram og gaman verður að sjá hver munu skrá sig í sögubækur mótsins um helgina.

Hér má nálgast tímaseðil og keppendalista mótsins.

Greinin birtist upphaflega á frjálsíþróttavefnum Silfrið https://silfrid.is/2023/01/20/munu-islandsmet-falla-a-stormoti-ir-um-helgina/

 

X